Nick D'Arcy
Nick D'Arcy
Ástralski sundmaðurinn Nick D'Arcy virðist hafa fengið grænt ljós á að freista þess að komast í ástralska sundliðið sem keppir á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar.

Ástralski sundmaðurinn Nick D'Arcy virðist hafa fengið grænt ljós á að freista þess að komast í ástralska sundliðið sem keppir á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar.

D'Arcy var illa fjarri góðu gamni þegar leikarnir voru haldnir í Peking fyrir fjórum árum síðan en þá var hann rekinn úr landsliðinu. Orsökin var sú að D'Arcy réðst á félaga sinn í landsliðinu, Simon Cowley, á skemmtistað í Sydney í mars 2008 með þeim afleiðingum að Cowley kjálkabrotnaði og nefbrotnaði auk þess sem augnbotn brotnaði.

Málið fór sína leið í dómskerfinu og D'Arcy fékk fjórtán mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm árið eftir. D'Arcy er 24 ára gamall og hefur ekki slegið slöku við í sundlauginni. Eins og sakir standa er hann fljótasti flugsundsmaður Ástrala sem eiga marga framúrskarandi sundmenn. Til að mynda á hann besta tíma ársins í 200 metra flugsundi 1.56,90 mínútur en þeim tíma náði hann á meistaramóti Nýja Suður-Wales í Ástralíu.

Cowley voru á síðasta ári dæmdar miklar skaðabætur upp á 194 þúsund dollara og í kjölfarið fór D'Arcy fram á að verða úrskurðaður gjaldþrota. Í framhaldi af þessari nýjustu hlið málsins vöknuðu spurningar um hvort D'Arcy yrði leyft að reyna að vinna sig inn í landsliðið fyrir Ólympíuleikana. Ástralska sundsambandið hefur nú tilkynnt Ólympíunefnd Ástralíu að D'Arcy verði ekki meinað að keppa í Lundúnum takist honum að vinna sér keppnisrétt. kris@mbl.is