Úr sýningunni Sá glataði verður sýndur í Sønderborg í júlí.
Úr sýningunni Sá glataði verður sýndur í Sønderborg í júlí.
Leiksýning leikfélagsins Hugleiks, Sá glataði , hefur verið valin fulltrúi Íslands á alþjóðlegri leiklistarhátíð Norður-evrópska áhugaleikhússambandsins (NEATA) í sumar.

Leiksýning leikfélagsins Hugleiks, Sá glataði , hefur verið valin fulltrúi Íslands á alþjóðlegri leiklistarhátíð Norður-evrópska áhugaleikhússambandsins (NEATA) í sumar.

Sýningin byggist á dæmisögum Nýja Testamentisins, með sögurnar af týnda sauðnum og glataða syninum í forgrunni. Handritshöfundur er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir en Ágústa Skúladóttir leikstýrir. Ellefu leikarar taka þátt í uppsetningunni.

„Það er mikill heiður að vera valin,“ segir Þorgeir Tryggvason, varaformaður Hugleiks. „Þátttaka í hátíð sem þessari er mikil lyftistöng fyrir okkur. Þátttakendur sjá ólíkar sýningar og nýjar aðferðir, og það hefur sýnt sig að þessi upplifun skilar sér á margbreytilegan hátt í það sem við gerum.“

Verkið var frumsýnt í upphafi þessa mánaðar og hefur hlotið góða dóma og mikla aðsókn. Áætlað er að sýna fram í miðjan mars í húsnæði Hugleiks að Eyjarslóð 9.

Þessi leiklistarhátíð er haldin annað hvert ár í einu aðildarlanda NEATA, sem eru Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin. Árið 2010 var hún á Akureyri, en að þessu sinni verður hún í Sønderborg á Jótlandi. Á hátíðinni verður ein sýning frá hverju aðildarlandanna, auk gestasýninga og námskeiða.

Hugleikur hefur tekið þátt í fjórum NEATA-hátíðum á síðastliðnum tólf árum og hefur alls fjórtán sinnum tekið þátt í lista- og leiklistarhátíðum, meðal annars í Mónakó, Rússlandi og Suður-Kóreu.