Lefty Mickelson að bjarga sér.
Lefty Mickelson að bjarga sér. — AP
Stjórnendur Skjás golfs hljóta að vera í sjöunda himni þessa dagana.

Stjórnendur Skjás golfs hljóta að vera í sjöunda himni þessa dagana. Ekki er nóg með að Tiger Woods sé að komast aftur í form eftir erfiðleikatíma sem heimsbyggðinni er vel kunnugt um, heldur virðist ólíkindatólið Phil Mickelson vera að rumska á ný eftir sína eigin eyðimerkurgöngu undanfarið.

Þá hafa lokahringir síðustu móta á PGA-mótaröðinni verið æsispennandi. Allt þetta hlýtur að vera gott fyrir áhorfstölur sjónvarpsstöðvarinnar.

Nokkrir íslenskir þulir lýsa mótum á stöðinni en stundum er bandaríska lýsingin að utan látin duga. Íslensku þulirnir standa sig ágætlega en það er ekki hægt að segja annað en að áskrifendur stöðvarinnar fái meira fyrir sinn snúð með erlendu lýsingunni.

Þeir íslensku eru yfirleitt einir í settinu að lýsa því sem ber fyrir augu en í erlendu útsendingunni eru að minnsta kosti tveir þulir auk fjölda lýsenda sem eru úti á velli sem koma með alls kyns nýjar upplýsingar og fróðleik. Íslenski þulurinn á skiljanlega lítið í þá samkeppni. Skjár golf mætti því íhuga að hafa annað hvort tvo þuli í hverri útsendingu eða að leyfa áhorfendum hreinlega að njóta erlendu lýsingarinnar alfarið.

Kjartan Kjartansson