Þorri blótaður Hér gefur að líta eitt af mörgum þorrablótum starfsmanna Morgunblaðsins fyrir rúmum þremur áratugum. Meðal annarra f.v: Ágúst Ingi Jónsson, Árni Johnsen, Björn Vignir Sigurpálsson, Halldór Blöndal, Árni Jörgensen og Árni Garðar Kristinsson.
Þorri blótaður Hér gefur að líta eitt af mörgum þorrablótum starfsmanna Morgunblaðsins fyrir rúmum þremur áratugum. Meðal annarra f.v: Ágúst Ingi Jónsson, Árni Johnsen, Björn Vignir Sigurpálsson, Halldór Blöndal, Árni Jörgensen og Árni Garðar Kristinsson. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
„Laufey ætlar að tala um hollustuna, lýsið, en ég fæ að tala um allt þetta óholla, þorramatinn.

„Laufey ætlar að tala um hollustuna, lýsið, en ég fæ að tala um allt þetta óholla, þorramatinn. Ég ætla að draga fram sögu þorramatarins og hvað þessi siðvenja að blóta þorra er nýtilkomin, ólíkt því sem margir halda,“

segir Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur en hún ásamt Laufeyju Steingrímsdóttur, prófessor í næringarfræði, mun í kvöld halda erindi í Víkinni sjóminjasafni á Grandagarði um þorrann, lýsið og matarhefðir á Íslandi.

Yfirskrift kvöldsins er Spegill fortíðar – silfur framtíðar.

„Þorrablótin voru á sínum tíma þaulhugsuð og snilldarleg markaðssetning sem gekk algerlega upp. Þetta fór af stað 1958 og Morgunblaðið kom þar mikið við sögu. Það var sérstakt samband á milli Moggans og Naustsins, stutt á milli þessara staða og mikill samgangur. Naustið var fínn staður og þar var mikill metnaður, en á þessu öðru ári rekstursins var dauft yfir viðskiptunum í janúar og þá er þetta keyrt af stað. Halldór Gröndal fékk þá hugmynd að bjóða upp á íslenskan mat fyrir alla borgarbúa, en átthagafélögin í Reykjavík voru sterk og stór samtök á þessum tíma og eingöngu á fundum þeirra var boðið upp á íslenskan mat. Útgangspunkturinn var semsagt: Þú þarft ekki að vera í átthagafélagi til að koma og borða íslenskan mat. Heilmikið var lagt í þetta og það tók sex ár að festa þessi þorrablót í sessi. Þetta var ævinlega kynnt með stórum og miklum blaðamannafundi, þar sem blaðamenn fengu að borða og drekka og það tryggði geníal umfjöllun í öllum dagblöðum og tímaritum sem komu út á þessum tíma. Þetta var því heilmikið í umræðunni og það var mikið talað um sjálfan matinn í þessum blaðaumfjöllunum. Það var lagt upp úr því að borða mikið og einu sinni var efnt til kappáts og ég ætla að segja frá þessu sögufræga kappáti í erindi mínu í kvöld, sem og öðrum svaðilförum blaðamanna tengdum þessum blótum. Þar koma við sögu hákarl, humar og kræklingar,“ segir Sólveig og hlær og vill ekki láta of mikið uppi. Þegar hún er spurð hvers vegna þær séu með þetta erindi nú þegar góan er gengin í garð segir hún: „Við verðum bæði að þreyja þorrann og góuna,“ en bætir við að vegna óviðráðanlegra aðstæðna hafi þurft að færa dagskrána þeirra fram í góu. Dagskráin í Víkinni hefst klukkan átta í kvöld, allir velkomnir og ókeypis aðgangur. khk@mbl.is