Jón Grímkell Pálsson fæddist að Hólabraut 9 á Skagaströnd 27. desember 1955. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Keflavíkur 11. febrúar 2012.

Grímkell var sonur hjónanna Páls Ólafssonar Reykdals Jóhannessonar, sjómanns og síðar húsvarðar á Skagaströnd, f. 20. ágúst 1907, d. 29. janúar 1989, og Gestheiðar Jónsdóttur, húsmóður og verkakonu, f. 28. febrúar 1919, d. 6. nóvember 2010. Alsystkini Grímkels eru: Jóhanna Sigríður, f. 26. júní 1949, hjúkrunarfræðingur í Noregi, stúlka, f. 12. júní 1950, dó á fyrsta ári, Jóhannes, f. 31. maí 1951, d. 23. nóvember 1986, sjómaður og bátasmiður síðast búsettur í Sandgerði, Snorri, f. 8. júní 1953, dó á fyrsta ári. Hálfsystir Grímkels, samfeðra, er: Unnur Skagfjörð, f. 9. febrúar 1925, húsmóðir í Reykjavík.

Grímkell kvæntist Ástríði Björgu Bjarnadóttur, f. 21. janúar 1955. Þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Hörður Bjarni, f. 11. maí 1977, sonur hans er: Flóki Hrafn, f. 7. maí 2002. 2) Haukur Emil, f. 21. mars 1983.

Grímkell ólst upp hjá foreldrum sínum á Skagaströnd og var á unglingsárum í sveit í Hvammi í Svartárdal hjá föðurbróður sínum Þorleifi Skagfjörð Jóhannessyni og konu hans Þóru Sigurðardóttur. Þegar hann hafði aldur til sótti hann almenna vinnu sem til féll í fæðingarbæ hans og einhvern tímann á lífsleiðinni aðstoðaði hann mömmu sína við flatkökubakstur. Reyndist það arðvænlegt fyrirtæki því flatkökurnar runnu út í búðum í nágrenninu.

Grímkell lauk gagnfræðaprófi frá Laugalækjarskóla í Reykjavík og var svo um skeið aðstoðarvélstjóri á Hópsnesinu, sem gert var út frá Grindavík. Svo gerðist hann aðstoðarmaður í vélarrúmi á stóru norsku flutningaskipi og sigldi allvíða, meðal annars til New Orleans í Bandaríkjunum. Á manndómsárum sínum bjó hann allnokkurn tíma úti í Noregi og lærði þar plastbátasmíði. Þegar hann kom aftur heim til Íslands stofnaði hann plastbátasmíðastöð með Jóhannesi bróður sínum. Ráku þeir það fyrirtæki í sameiningu um skeið, en síðar fjárfesti Grímkell í körfubílum og hafði aðalframfæri sitt af útgerð þeirra á meðan honum entist heilsa. Einhvern tímann á starfsævinni sá hann um rekstur sjoppu á Hraunborgum í Grímsnesi fyrir félaga sinn Magnús Helga Sigurðsson. Og hann fór á námskeið í Dale Carnegie-fræðum hjá Konráð Adolphssyni. Síðustu tvo áratugina sem Grímkell lifði var hann farinn að heilsu. Fyrst greindist hann með MS-sjúkdóm, sem stundum gekk afar nærri honum, en svo komu tímabil á milli sem hann var betri. Síðar fékk hann heilablóðfall, sem hann náði sér reyndar merkilega eftir, en um síðastliðna páska greindist hann með heilabilun og hrakaði honum mjög ört eftir það. En þrátt fyrir heilsuleysi sitt lagði Grímkell ekki alveg árar í bát fyrst framan af þessum tveimur áratugum. Hann sinnti sölumennsku, stundaði bifreiðaviðgerðir með félaga sínum Guðjóni Sigurbjörnssyni og smíðaði og lagfærði um skeið allmikið fyrir annan vin sinn Sigurð Óla Sigurðsson, veitingamann á A. Hansen í Hafnarfirði.

Útför Grímkels fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. febrúar 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Grímkell Pálsson var meðalmaður að hæð, dökkeygur, dökkur á hár og lét sér oft vaxa alskegg á seinni árum. Hann var afburðahraustmenni, meðan heill var, duglegur verkmaður og áhugasamur um það sem hann tók sér fyrir hendur, bráðgreindur að náttúrufari, hagur til smíða og vélaviðgerða og ýmiss konar lagfæringa. Hann hafði gaman af vélknúnum ökutækjum, naut þess að keyra bíl og sigla bát, og fyrir kom að hann fékk að taka í flugvél hjá æskuvini sínum Helga Þór Bjarnasyni, vélstjóra frá Skagaströnd.

Grímkell var mikill skapmaður en stilltur vel. Hann átti til að loka á fólk, en aldrei varð ég var við að hann hataði nokkurn mann eða óskaði honum ófarnaðar. Hann var stoltur að eðlisfari en yfirlætislaus í framkomu. Dómgirni og siðdekur voru ekki til í honum. Og hann var algerlega laus við fals.

Grímkell hafði gaman af því að rabba við fólk, gjarnan með bjórglas í hönd. Hann gerði sér aldrei mannamun eftir stétt eða stöðu, heldur mat fólk fyrst og fremst eftir mannkostum og einnig eftir því sem það hafði til brunns að bera að öðru leyti. Návist hans var þægileg, geislaði frá sér skapstyrk og hlýju. Hann trúði fastlega á Jesú Krist, var eldheitur ættjarðarvinur og eindreginn sósíalisti.

Kynni okkar Grímkels hófust norður á Sauðárkróki fyrir um það bil átján árum. Þá var hann illa haldinn af MS-sjúkdómnum og höfðu læknar spáð honum fullkominni lömun í fótum og mögulega dauða innan skamms. Ég leitaði til Björns Mikaelssonar huglæknis og bað hann um að reyna að bæta Grímkeli. Og skömmu síðar var hann búinn að sleppa hækjunum. Vinátta okkar stóð óslitið síðan og gisti ég oftast hjá honum í íbúð hans á neðrihæðinni að Hellisgötu 22 í Hafnarfirði, þegar ég var á ferð á höfuðborgarsvæðinu, stundum með unga dóttur mína, Guðnýju Klöru.

Oftast nær kom ég þó einn og fórum við þá oft saman á veitingahúsið A. Hansen og fengum okkur bjórglas. Undir það síðasta létum við okkur nægja nokkra bjóra fyrir svefninn í íbúð hans og tókum svo rúnt daginn eftir, því Grímkell átti bíl og var fær um að keyra hann þar til í byrjun síðasta árs. Mörgu góðu fólki kynntist ég í tengslum við Grímkel í Hafnarfirði. Fólk laðaðist að honum vegna hans hlýlega og falslausa viðmóts og ekki síður fyrir þær sakir að hann var manna skemmtilegastur, orðhagur og hafði ríka kímnigáfu. Hann gat líka verið stríðinn og meinlegur, ef svo bar undir, en mun þó aldrei hafa sært neinn djúpum sárum.

Grímkell Pálsson var raungóður vinur, skemmtilegur félagi og ræktarsamur ættingi, sem hljóp fúslega undir bagga með skyldmennum sínum, jafnvel þó að efni hans leyfðu það tæpast. Betri vin og félaga hef ég ekki eignast á lífsleiðinni. Vertu blessaður, vinur minn. Hafðu þökk fyrir samverustundirnar sem við áttum, góðvildina sem þú sýndir mér og lífsviskuna sem þú miðlaðir mér. Farnist þér vel í ferðinni yfir móðuna miklu. Vonandi eigum við eftir að sjást einhvern tímann aftur. Ég votta ættingjum og vinum dýpstu samúð mína. Það voru mikil forréttindi að fá að kynnast þér.

Guðmundur Sigurður Jóhannsson.

Það brenna hús, það brenna hjörtu,

úr bálsins hafi reykir stíga;

við bláan himin bjarmi leikur;

í bleika ösku vonir hníga.

Það brenna hús, það brenna hjörtu,

í börnin glefsa rauðir vargar

við öldnum hvæsa eldsins tungur,

– en er þá nokkur von til bjargar?

Að húskofanum hundruð þyrpast

og hamast þar uns lausn er fengin

en eitt í hljóði hjartað brennur,

– þar hjálpar enginn enginn enginn.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Elsku drengurinn minn!

Þá ertu fluttur í Sumarlandið og ég held að skemmtanastigið muni hækka þar töluvert er þú mætir með þínar óborganlegu sögur. Ég get því miður ekki fylgt þér þessi síðustu spor í jarðlífinu. Verð að eiga í minningunni „stíginn okkar“ á Hansen þar og þá. Þakka þér „stundirnar í viskubrunninum“ mér og mínum til handa og megi eilífðin hossa þér og dilla svo sem þú átt skilið.

Þín,

Óla.