Ganga Makríllinn gengur um Bakkaflóa á hverju ári.
Ganga Makríllinn gengur um Bakkaflóa á hverju ári.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur synjað Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn um kvóta og leyfi til makrílveiða í gildru í Finnafirði austan Langaness.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur synjað Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn um kvóta og leyfi til makrílveiða í gildru í Finnafirði austan Langaness. Veiðiréttareigendur lögðust gegn tilrauninni, töldu hana nýtt upphaf að laxveiðum í sjó hér við land.

„Við erum ánægðir með þessa niðurstöðu. Við höfðum verulegar áhyggjur ef menn ætluðu að vera með tilraunir með afkastamikil veiðarfæri í sjó, tæki sem hafa mest verið notuð til að veiða lax, og setja þau niður á þeim tíma sem laxinn gengur,“ segir Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Jóhann A. Jónsson, sem vann að verkefninu, telur ótta veiðiréttareigenda ástæðulausan. „Það gætu komið í þetta aðrir fiskar, þorskur eða lax, en þeir eru allir lifandi og sleppt lifandi til baka,“ segir Jóhann. Hann segir að veiðiréttareigendur hafi sterk ítök og þeirra sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu málsins.

Tilraunin úr sögunni

Makríll hefur sést mikið á Bakkaflóa og gengið meðfram landinu. Ísfélagið sótti um leyfi fyrir einni gildru með tilheyrandi leiðurum til að sjá hvort hægt væri að veiða hann með þessari aðferð eins og gert er við strendur Kanada. Hugmyndin var síðan að taka hann ferskan í vinnsluna, þegar þar vantaði hráefni, og auka með því verðmæti afurða.

Verkefnið fékk á síðasta ári fimm milljóna króna styrk úr sjóði iðnaðarráðuneytisins sem ætlaður var til atvinnusköpunar í sjávarbyggðum.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú hafnað umsókn um kvóta og leyfi til makrílveiða í gildru. Ráðuneytið mælti hins vegar með því að farið yrði í minna rannsóknarverkefni í samvinnu við stofnanir á þessu sviði, og þá á svæði og tíma sem minnstar líkur eru á laxfiskagengd. Ekki eru líkur á að af því verði þar sem makríllinn gengur á sama tíma og laxinn.

Jóhann bendir á að það kosti verulega fjármuni að gera slíkar tilraunir af alvöru og telur ekki grundvöll til þess að fara í minna verkefni.