Emil Hallfreðsson
Emil Hallfreðsson
Emil Hallfreðsson æfði af fullum krafti með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í Podgorica í Svartfjallalandi í gærkvöldi. Greinilegt var að meiðsli þau sem hann hlaut á æfingu hjá Verona á Ítalíu um helgina voru ekki alvarleg.

Emil Hallfreðsson æfði af fullum krafti með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í Podgorica í Svartfjallalandi í gærkvöldi. Greinilegt var að meiðsli þau sem hann hlaut á æfingu hjá Verona á Ítalíu um helgina voru ekki alvarleg. Allt bendir til að hann verði klár í slaginn þegar flautað verður til vináttulandsleiks Íslands og Svartfjallalands í Podgorica á miðvikudaginn.

Vegna meiðsla Emils og Arons Einars Gunnarssonar var Pálmi Rafn Pálmarson kallaður inn í landsliðshópinn seint í fyrrakvöld og kom hann til móts við íslenska landsliðið síðdegis í gær.

Að sögn Ómars Smárasonar hjá KSÍ, sem er í för með íslenska landsliðinu í Svartfjallalandi, er ekki ljóst enn hversu alvarleg meiðsli Arons Einars eru. Hann var ekki væntanlegur til höfuðborgar Svartfjallalands fyrr en seint í gærkvöldi. Verður ástand hans skoðað í dag.

Leikmenn íslenska landsliðsins æfðu á aðaleikvellinum í Podgorica í gærkvöldi að þeim Aroni, Eggerti Gunnþór Jónssyni, Gylfa Sigurðssyni og Grétari Rafni Steinssyni undanskildum en þeir komu saman til landsins seint í gærkvöldi.

Æfingin gekk vel en afar svalt er í Svartfjallandi eins og hefur raunar verið á öllum Balkanskaganum í rúman mánuð. iben@mbl.is