Í samkeppni hins alþjóðlega ferðatímarits Travel & Leisure um svokölluð hönnunarverðlaun ritsins var Harpa valin besta listviðburðahús ársins (Best Performance Space).
Hópur virtra dómara velur fyrir tímaritið þær byggingar, söfn, veitingastaði, almenningsrými og hótel sem þeir telja skara fram úr og er öll jarðarkringlan undir í valinu. Í umsögn dómnefndar um tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu er talað um einstakt samstarf arkitekta við myndlistarmanninn Ólaf Elíasson. Sköpuð hafi verið bygging sem líkir eftir risavaxinni kviksjá að kvöldlagi og varpi hún bæði fram ljósum og endurspegli þau með stórfenglegum hætti. „Harpa minnir á vatn í sínu æðsta formi – litadýrð glersins endurspeglar bæði ský og ís,“ segir í umsögninni.
Hjá arkitektavefsíðunni ArchDaily hefur Harpa verið tilnefnd sem ein af fimm menningarbyggingum ársins. Einnig hefur byggingin verið tilnefnd til hinna bresku Civic Trust Awards-verðlauna. Úrslit úr báðum þessum samkeppnum liggja fyrir í byrjun mars.