[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurbergur Sveinsson og samherjar hans í RTV Basel leika hreinan úrslitaleik við St. Otmar St. Gallen annað kvöld um sæti í úrslitakeppni sex efstu liðanna um svissneska meistaratitilinn í handknattleik. Basel er í 7. sæti en St. Otmar í því 6.
S igurbergur Sveinsson og samherjar hans í RTV Basel leika hreinan úrslitaleik við St. Otmar St. Gallen annað kvöld um sæti í úrslitakeppni sex efstu liðanna um svissneska meistaratitilinn í handknattleik. Basel er í 7. sæti en St. Otmar í því 6. Sex efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Dóra María Lárusdóttir , landsliðskona í knattspyrnu, skoraði í fyrsta deildaleik sínum fyrir Vitoria í Brasilíu á sunnudaginn. Lið hennar og Þórunnar Helgu Jónsdóttur vann þá auðveldan útisigur á Igrassu Real, 6:1, og skoraði Dóra annað mark liðsins eftir um hálftíma leik. Hún og Þórunn héldu síðan áleiðis til Portúgals þar sem þær hefja keppni með íslenska landsliðinu í Algarve-bikarnum á morgun. Þær missa af næsta deildaleik Vitoria vegna mótsins.

G uðjón Valur Sigurðsson er í áttunda sæti yfir markahæstu leikmenn í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Guðjón skoraði 8 mörk fyrir AG Köbenhavn á móti Kiel og hefur skorað 57 mörk. Zlatko Horvard , leikmaður Croatia Zagreb, og Frantisek Sulc úr Pick Szeged eru markahæstir með 69 mörk hvor.

Bandaríkjamaðurinn Hunter Mahan bar sigur úr býtum á heimsmótinu í holukeppni í golfi sem lauk í Arizona í fyrrinótt. Mahan komst þar með upp í 9. sæti á heimslistanum og það er í fyrsta sinn sem hann kemst á topp tíu listann en hann var í 22. sæti fyrir mótið. Mahan hafði betur í úrslitaeinvígi gegn Norður-Íranum Rory McIlroy . Luke Donald frá Englandi situr á toppi heimslistans, Rory McIlroy er í öðru sæti og Englendingurinn Lee Westwood er í þriðja sæti. Tiger Woods féll úr leik strax í 2. umferð heimsmótsins þegar hann beið lægri hlut fyrir Nick Watney og Woods féll þar með af listanum yfir þá 20 efstu á heimslistanum.

Búist er við því að argentínski knattspyrnumaðurinn Carlos Tévez leiki með varaliði Manchester City í dag þegar það mætir Preston í leik sem leikinn verður fyrir luktum dyrum. Tévez sneri aftur til æfinga hjá Manchester-liðinu í síðustu viku en hann hefur ekkert leikið með liðinu frá því í september eða frá því hann neitaði að fara inn á í leik á móti Bayern München í Meistaradeildinni. City mætir Bolton í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi. Ekki er reiknað með því að Argentínumaðurinn taki þátt í þeim leik en hann gæti komið við sögu um aðra helgi þegar City mætir Swansea, liði Gylfa Þórs Sigurðssonar .

K obe Bryant , körfuboltasnillingurinn hjá Los Angeles Lakers, nefbrotnaði í stjörnuleiknum í Orlando í fyrrinótt en Lakers staðfesti þetta í gær. Bryant, sem sló stigamet Michaels Jordans í stjörnuleikjum NBA, fékk högg í andlitið frá Dwyane Wade og í ljós kom í gærmorgun að nefið væri brotið. Hann fer til sérfræðings í Los Angeles um leið og hann kemur aftur heim.