Þjóðaratkvæðagreiðsla Ung sýrlensk kona sýnir hér kjörseðil sinn.
Þjóðaratkvæðagreiðsla Ung sýrlensk kona sýnir hér kjörseðil sinn. — AP
Ný stjórnarskrá var samþykkt í Sýrlandi með tæplega 90% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var á sunnudaginn var.

Ný stjórnarskrá var samþykkt í Sýrlandi með tæplega 90% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var á sunnudaginn var. Í fréttatilkynningu frá sýrlenska innanríkisráðuneytinu segir að kjörsóknin hafi verið 57% en rúmlega 14 milljónir manna voru á kjörskrá. Af þeim 8,4 milljónum kjósenda sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sögðu tæplega 7,5 milljónir „já“ en rúmlega 750 þúsund „nei“. Um það bil 133 þúsund atkvæði voru dæmd ógild en það jafngildir um 1,6% af heildarfjölda atkvæða.

Héldu áfram árás

Stórskotaliðsárás sýrlenska hersins á borgina Homs stóð áfram yfir í gær á meðan beðið var eftir því að tilkynnt yrði um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Af þeirri ástæðu hafa þjóðarleiðtogar Vesturlanda sumir hverjir sagt framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar skorta allan trúverðugleika. Þannig lýsti William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, því yfir á fundi utanríkisráðherra ESB-ríkjanna í Brussel í gær að sýrlenska þjóðaratkvæðagreiðslan blekkti engan. „Það að opna kjörstaði en láta þó sprengjum og byssukúlum rigna áfram yfir óbreytta borgara í landinu er ekki traustvekjandi í augum íbúa heimsins,“ sagði Hague á fundinum í gær þar sem utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB samþykktu að beita stjórnvöld í Sýrlandi harðari refsiaðgerðum en áður.

skulih@mbl.is