Á sjó Tvær áhafnir eru á Herjólfi og tólf skipverjar eru í hvorri.
Á sjó Tvær áhafnir eru á Herjólfi og tólf skipverjar eru í hvorri. — Morgunblaðið/RAX
Fulltrúar fjögurra hópa og félaga í Vestmanneyjum sendu innanríkisráðherra bréf fyrir átta dögum og kröfðust þess að siglingatími Herjólfs frá 1. apríl til 30. september yrði rýmkaður þannig að síðasta ferð frá Eyjum til Landeyjahafnar yrði klukkan 23.

Fulltrúar fjögurra hópa og félaga í Vestmanneyjum sendu innanríkisráðherra bréf fyrir átta dögum og kröfðust þess að siglingatími Herjólfs frá 1. apríl til 30. september yrði rýmkaður þannig að síðasta ferð frá Eyjum til Landeyjahafnar yrði klukkan 23.30 og síðasta ferð til Eyja klukkan eitt eftir miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var ekki gert ráð fyrir breytingum á siglingatíma í útboði sem nú stendur yfir í rekstur Herjólfs 2012-2014.

Undir bréfið til ráðherra rituðu fulltrúar ferðaþjónustu, kaupsýslumanna, áhugahóps um bættar samgöngur og fulltrúi Íþróttabandalags Vestmannaeyja.

Samkvæmt sumaráætlun verður síðasta ferð frá Eyjum kl. 20.30 og síðasta ferð frá Landeyjahöfn er klukkan 22.00. Tvær áhafnir eru á Herjólfi og vegna hvíldartímaákvæða yrði að bæta þeirri þriðju við ef farið yrði að kröfum Eyjamanna.

Bjarni Ólafur Guðmundsson, veitingamaður í Höllinni, kom að ritun bréfsins en hann segir að núverandi siglingaáætlun þrengi mjög að ferðaþjónustunni í Eyjum og sömuleiðis að möguleikum Eyjamanna til ferðalaga uppi á landi. Bjarni bendir á að ef hópar komi til Eyja hafi þeir lítið svigrúm til að skoða eyjuna og ljúka síðan deginum með sameiginlegum kvöldverði. „Fólk þarf nánast gleypa í sig matinn til að vera komið í Herjólf á réttum tíma,“ segir hann. Hið sama gildi um þá sem komi til að spila golf, fólk nái varla að klára hringinn áður en það þarf að rjúka niður á höfn.

Hópurinn óskar einnig eftir því að forgangur fyrir gámaflutninga verði minnkaður en Bjarni segir brögð að því að ekki hafi verið pláss fyrir bíla vegna gámaflutninga og þar með hafi menn hvergi komist.

runarp@mbl.is