Þórdís Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík 14. desember 1927. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. febrúar 2012.
Þórdís var jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík 17. febrúar 2012.
Nú, þegar þessi sérkennilega fjölhæfi listamaður er hallur af heimi, vil ég þakka fyrir mig. Fyrst man ég eftir henni sem barn, og þá fyrir fegurð hennar, og sú dofnaði ansi lítið með árunum. Ekki eru þær síðri endurminningarnar um bækurnar, sem hún myndskreytti. Myndirnar skoðaði ég aftur og aftur með röntgenaugum, og man þær enn. En mikilvægasta gjöfin, hvað mig varðar, er hún Helga dóttir hennar og vinkona mín. Tryggðin, eins og hún best getur orðið, húmorinn og væntumþykjan sömuleiðis. Sigga mín, Böggi og Tryggvi eru ekkert slor, heldur, góðar og heilsteyptar manneskjur – og skemmtilegar.
Egill, eiginmaður Þórdísar, er mér sömuleiðis mjög minnisstæður. Hann var góður maður og hlýr. Við vorum samkennarar nokkur ár, og sá barg nú oft lífi mínu, þegar leiðindin á kennarastofunni voru að drepa mann. Nú hafa þessi sómahjón bæði kvatt, og að þeim er eftirsjá. Mikið vildi ég óska þess að heimurinn væri fullur af fólki eins og þeim. Ég hugsa til ykkar allra, sem elskuðuð Þórdísi, og samhryggist ykkur einlæglega.
Guðrún Ægisdóttir.
Hún amma mín var merkiskona. Hún var dóttir Tryggva Magnússonar, listmálara, og Sigríðar Sigurðardóttur, sem líka var listmálari og fékk hún hæfileika þeirra í vöggugjöf. Hún var afar flink í fingrunum, hvort sem það var píanóleikur, útsaumur, fatasaumur, málverk, leirverk eða smíðar. Ég hef verið svo heppin að hún saumaði á mig allmarga kjóla þegar ég var lítil stelpa, sem ég á enn. Listhæfni hennar lifir í þeim.
Ég mun sakna hennar mikið, ég mun sakna að koma til hennar til að fá „jukk“ um jólin. Eins ólystuglega og það hljómar, þá var þetta bara nokkuð góður kjúklingaréttur í tartalettum. Hún gerði það vel þó henni leiddist eldamennska yfirleitt.
Ég mun sakna þess að hlusta á hana, pabba og systkini hans tala um gamla tíma. Sögurnar um allt fólkið sem þau þekktu og bjó í kringum þau úti á Seltjarnarnesi og í vesturbænum. Ég gæti setið tímunum saman án þess að segja nokkuð, bara að hlusta á sögurnar um allt litskrúðuga fólkið. Þær sögur munu vonandi halda áfram en það verður ekki eins án hennar.
Fyrir nokkrum árum tók ég viðtal við hana vegna verkefnis í háskólanum og sagði hún mér frá stríðsárunum og þegar hún gifti sig rétt eftir þau. Hún varð að gifta sig í svörtu því það var eina efnið sem hún fékk og þurfti hún að fara alla leið á Selfoss til þess að ná í efnið. Hún reddaði sér alltaf.
En nú er hún fallin frá, öllum að óvörum, en hún átti þó langa og skemmtilega ævi, þrátt fyrir streð. Ég vona að hún sé á skemmtilegum stað með afa, vinum og vandamönnum, kannski er hún að bera fram hangikjöt og jukk á milli þess sem hún spilar fyrir þau á píanó og segir sögur.
Ég votta pabba, systkinum hans og öðrum ættingjum mína dýpstu samúð.
Helga Dís Björgúlfsdóttir.