Skip við skip Loðnuflotinn hefur verið að veiðum undan Reykjanesi síðustu daga. Hér er flotinn skammt utan hinnar fornu verstöðvar Selatanga.
Skip við skip Loðnuflotinn hefur verið að veiðum undan Reykjanesi síðustu daga. Hér er flotinn skammt utan hinnar fornu verstöðvar Selatanga. — Ljósmynd/Ómar Smári
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Það er líflegt hér við Reykjanesið, um tugur loðnuskipa og svo önnur fiskiskip af öllum stærðum og gerðum með alls konar veiðarfæri í sjó,“ sagði Sturla Einarsson, skipstjóri á Guðmundi VE, síðdegis í gær.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Það er líflegt hér við Reykjanesið, um tugur loðnuskipa og svo önnur fiskiskip af öllum stærðum og gerðum með alls konar veiðarfæri í sjó,“ sagði Sturla Einarsson, skipstjóri á Guðmundi VE, síðdegis í gær. Loðnan var þá komin vestur fyrir Reykjanes á leið sinni á hrygningarstöðvarnar og voru skipin að byrja að vinna eftir um sólarhringsbrælu.

„Það er mikið að sjá hérna, sterk lóð, mikill flekkur fremst í loðnugöngunni og veiðarfærunum hætta búin ef menn fá of stór köst,“ sagði Sturla. „Venjan er sú að stærsta sílið sé fremst í göngunni og það styttist í hrognatöku almennt. Þá hættum við að frysta um borð og förum að veiða fyrir hrognavinnsluna heima í Eyjum.“

Þeir á Guðmundi voru að klára að heilfrysta fyrir Japansmarkað það sem fékkst út af Grindavík á sunnudaginn og voru ekki búnir að kasta eftir bræluna. Sturla sagði að sjór hefði verið þungur fram eftir degi, en þeir sem voru búnir að kasta síðdegis í gær höfðu fengið góð köst.

Nægur hrognaþroski fyrir Japansmarkað um miðja vikuna

Um helgina var byrjað að vinna hrogn fyrir markaði í Austur-Evrópu hjá HB Granda á Akranesi og á Vopnafirði. Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávardeildar fyrirtækisins, segir að þetta séu góð iðnaðarhrogn. „Þroski ætti síðan að verða nægur fyrir hrognatöku fyrir markaði í Japan upp úr miðri vikunni,“ segir Vilhjálmur, en hrogn á Japansmarkað eru verðmætustu afurðirnar.

Þrjú skip HB Granda voru í gær á miðunum við Reykjanes, Ingunn, Lundey og Víkingur. Faxi var hins vegar að landa á Vopnafirði, en þangað er um 30 tíma sigling. Vilhjálmur segir að fyrirtækið eigi eftir að veiða um 36 þúsund tonn af 109 þúsund tonna kvóta og almennt giskar hann á að fyrirtækin eigi eftir um 30% af kvótum sínum.

„Ætli við þurfum ekki þokkalegt veður og þrjár vikur áður en loðnan hrygnir, þá ætti þetta að hafast þokkalega,“ sagði Vilhjálmur.

Mestu hefur verið landað í Neskaupstað og Vestmannaeyjum

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu var í gær búið að landa um 385 þúsund tonnum, en reikna má með að aflinn sé kominn yfir 400 þúsund tonn þar sem löndunarskýrslur berast einhverjum dögum eftir löndun.

Mestu hefur verið landað í Neskaupstað, yfir 72 þúsund tonnum. Vestmannaeyjar eru í öðru sæti með um 64 þúsund tonn og Þórshöfn, Vopnafjörður og Eskfifjörður koma þar á eftir.