Þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákærunnar á hendur Geir H. Haarde fyrir landsdómi er á dagskrá fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrir hádegi í dag.

Þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákærunnar á hendur Geir H. Haarde fyrir landsdómi er á dagskrá fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrir hádegi í dag.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sæti á í nefndinni segist vona að nefndin afgreiði málið frá sér á fundinum í dag.

Nauðsynlegt að fá botn í málið

„Ég kýs að taka mark á því sem formaður nefndarinnar sagði í fjölmiðlum að hún stefndi að því að gera það í fyrri hluta vikunnar. Það er nauðsynlegt að það fáist botn í þetta mál núna því að óbreyttu eiga réttarhöldin að hefjast í næstu viku [mánudaginn 5. mars]. Það er þægilegast fyrir alla að vilji þingsins liggi þá skýr fyrir,“ segir Birgir.

Aðspurð hvort ætla megi að vilji þingsins liggi fyrir áður en stefnt er að því að hefja réttarhöldin kveðst Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, binda vonir við það.

Lýsir sig sammála Birgi

„Ég held að við eigum von á því. Það ætla ég að rétt að vona. Ég er mjög sammála Birgi Ármanssyni í því að það þarf að liggja fyrir fyrir 5. mars,“ segir Valgerður og á við hver vilji þingsins er í málinu. Hún sagði það ekki í sínum verkahring að tjá sig um hvort til stæði að halda aukaþingfund á föstudag vegna málsins.

Tæpt eitt og hálft ár er liðið síðan Alþingi samþykkti hinn 28. september 2010 að höfða bæri sakamál fyrir landsdómi á hendur Geir H. Haarde.

Ekki náðist í forseta þingsins, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur.