Guðrún Hálfdanardóttir fæddist á Bakka á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu 30. janúar 1928. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands 14. febrúar 2012.

Útför Guðrúnar fór fram frá Hafnarkirkju 18. febrúar 2012.

Rúna var húsmóðir, listamaður, garðyrkjusérfræðingur, grasafræðingur og yfirleitt vel að sér um þau fræði er sneru að náttúrunni almennt en fyrst og fremst mannvinur, langt á undan sinni samtíð á mörgum sviðum. Garðurinn var hennar líf og yndi og þar ræktaði hún margar framandi plöntur með ótrúlegum árangri. Allt óx og dafnaði hjá Rúnu hvort sem var um að ræða blóm eða börn.

Ég var svo lánsöm að eiga samleið með Rúnu meira og minna allt mitt líf þar sem dóttir hennar Snæfríður er æskuvinkona mín. Fyrir mig sem kom úr stórum systkinahópi var notalegt að vera í Miðtúni þar sem heimili fjölskyldunnar var alla tíð eftir að Rúna flutti úr foreldrahúsum.

Hlutskipti Rúnu var að þjóna. Fyrst sá hún um aldraða foreldra sína og tvo bræður. Þegar foreldrar hennar létust voru það bræður hennar og fjölskylda sem áttu hug hennar allan. Við hjónin hófum búskap á efri hæðinni hjá Rúnu og bjuggum þar þegar við eignuðumst okkar fyrsta barn. Alltaf var Rúna tilbúin að hjálpa og ávallt var vel tekið á móti okkur á neðri hæðinni.

Síðastliðin tvö ár var Þorgils sonur minn svo lánsamur að vera í fæði hjá Rúnu í hádeginu ásamt Sædísi dóttur Snæfríðar. Ég spurði Rúnu eitt sinn hvort þetta væri ekki of mikið fyrir hana, hún komin á níræðisaldur, en hún hélt nú ekki. Það væri svo gaman að fá þessa unglinga í mat sem borðuðu allt og svo gaman að ræða málin við þau. Þorgils sagði líka að það væri svo gaman að tala við Rúnu, hún vissi bara allt. Rúna var hafsjór af fróðleik og skrifaðist á við fólk um allan heim. Þó skólagangan hafi ekki verið löng var Rúna vön að bjarga sér og var orðabókin óspart notuð.

Rúna missti eiginmann sinn allt of snemma en þó hún saknaði Svavars mikið eins og við öll þá hélt hún ótrauð áfram að halda lífinu gangandi. Stórt skarð var svo aftur höggvið í fjölskylduna þegar dóttir hennar Björg lést úr krabbameini og tók það mjög á Rúnu, þessa sterku konu.

Listaverk hennar voru einstök, endurspegluðu gamla tímann og mikið nostrað við þau. Mér þykir mjög vænt verk sem ég á eftir hana af konu í íslenskum búningi sem hún prjónaði úr örfínni ull sem hún spann og litaði sjálf. Fyrir rúmu ári hætti hún að vinna hjá HSSA en tvisvar í viku spjallaði hún við gamla fólkið, las fyrir það eða vann í höndunum. Skjólstæðingar hennar voru margir yngri en hún, sem sýnir hvað hún var kraftmikil og dugleg.

Tímaleysi og hraði hjá okkur nútímafólki gerir að verkum að margt mun glatast með þeirri kynslóð sem Rúna tilheyrir og ég sakna þess að hafa ekki gefið mér meiri tíma til að bergja af viskubrunni hennar. Ég var svo heppin að fá að eiga nokkra góða daga með henni áður en hún lést, sem er ómetanlegt og ég er forsjóninni þakklát fyrir. Hugur minn er hjá fjölskyldunni sem syrgir ekki bara ættmóður heldur vin sem með natni og umhyggjusemi fékk allt lifandi í kringum sig til að vaxa og dafna. Minning um elskulega konu mun lifa með okkur um ókomna tíð. Snæja mín, Helgi, Guðný, Vigfús, Haukur og fjölskyldur. Ég og fjölskylda mín sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún.