Róbert Benediktsson fæddist í Stóru-Hildisey í Austur-Landeyjum 28. janúar 1944. Hann lést á Kanaríeyjum 28. janúar 2012.

Róbert var jarðsunginn frá Selfosskirkju 18. febrúar 2012.

Haustvindur napur næðir,

og nístir mína kinn.

Ég kveð þig kæri vinur,

kveðja í hinsta sinn.

Ég man brosið bjarta,

og blíðan svipinn þinn.

Það er sárt að sakna,

sorgmæddur hugurinn.

(Sæbjörg María Vilmundsd.)

Mig langar að minnast í nokkrum orðum hans Róberts, fósturföður míns og góðs félaga.

Þú komst inn í líf mitt þegar ég var 12 ára gamall, þegar þú og mamma byrjuðuð að búa í Háukinn í Hafnarfirði. Góð vinabönd mynduðust strax á milli okkar og hafa ávallt verið. Minnist ég veiðitúranna sem ég fór með þér og sonum þínum í, oftast upp á Úlfljótsvatn. Og sem unglingur fékk ég að vinna hjá þér á sumrin.

Eftir að ég stofnaði sjálfur fjölskyldu ferðuðumst við mikið saman og samgangur var mikill á milli fjölskyldu minnar og ykkar mömmu. Ótalmargar minnisstæðar eru útileigur sem við fórum í öll saman, og oftast var farið austur fyrir fjall, þar sem þú, kæri vinur, fræddir okkur um sveitina þína.

Ógleymanlegt er þegar ég var á Costan del Sol að halda upp á 30 ára afmælið mitt með fjölskyldunni minni, þegar þið mamma komuð óvænt út við mikinn fögnuð. Og fleiri utanlandsferðir fylgdu eftir sem við fórum með ykkur í sem gleymast seint.

Er mér minnisstætt þegar við Dúna giftum okkur, við vorum ekki klár á danssporunum og vorum aðeins að vandræðast með það. Þú bauðst okkur á þá heim til þín og mömmu og heima í stofu skelltir þú harmonikkutónlist á fóninn og þið kennduð okkur brúðarvalsinn, enda varst þú mikill músíkmaður og þið mamma alltaf flottust á dansgólfinu og sást hvað ástin blómstraði á milli ykkar.

Tresegy, tipphópurinn okkar. Þar sem í átta ár samfleytt hittumst við nokkrir félagarnir á föstudagskvöldum og spáðum í fótboltaleiki helgarinnar. Alltaf var mikið fjör og gaman. Sjö ár af átta endaði bikarinn uppi á hillu hjá þér þar sem þú varst tippari ársins.

Margar fleiri minningar um þig geymum við í hjarta okkar.

Mjög þakklát erum við fyrir að hafa kynnst þér og hvað þú hefur reynst mömmu minni vel og mér og minni fjölskyldu.

Þín verður sárt saknað og átt þú alltaf stað í hjarta okkar.

Guð geymi þig, kæri vinur.

Brynjar, Guðrún, Sandra og Auðbjörg.

Laugardaginn 28. janúar átti hann pabbi minn afmæli. Þann dag varð hann 68 ára. Á afmælisdaginn var hann staddur úti á Spáni, en foreldrar mínir hafa um langt árabil farið þangað í frí hvern vetur. Nú var afmælisdagurinn hans pabba runninn upp og ég ætlaði svo sannarlega ekki að klikka á því að heyra í besta vini mínum á afmælisdaginn. Þegar síminn hafði hringt nokkrum sinnum svaraði ókunnug rödd. Ég hélt ég hefði hringt í vitlaust númer, en svo var ekki og röddin tjáði mér að hann pabbi minn hefði dáið nokkrum mínútum áður.

Ég er ekki alveg búinn að átta mig á því að þú sért farinn. Þú sem varst svo eldhress þegar ég hitti ykkur mömmu kvöldið áður en þið fóruð út. Það er ömurlegt að hugsa til þess að börnin mín fái aldrei að kynnast manninum sem reyndist mér alltaf svo vel og studdi mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Manninum sem ól mig upp, kenndi mér allt sem ég kann og gerði mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég veit hreinlega ekki hvernig maður heldur áfram eftir að fótunum hefur verið kippt svo rækilega undan manni. Það er þó huggun í trúnni og öllum þeim góðu minningum sem ég á um þig.

Ég mun aldrei gleyma því hvað þið mamma voruð ástfangin. Þið létuð alltaf eins og unglingar. Þið kölluðuð hvort annað aldrei neitt annað en ástina – „Ástin, viltu rétta mér...“ Ef mamma kallaði þig Róbert hafðir þú gert eitthvað af þér.

Þú varst alltaf svo ráðagóður og það var hægt að stóla á þig með allt, því þú kunnir allt. Þú hlóst svo mikið í síðasta samtalinu okkar þegar ég hringdi út til ykkar og spurði þig hver væri besta leiðin til að berja harðfisk og að sjálfsögðu kunnir þú bestu aðferðina.

Ég vona að allar þær góðu stundir sem við áttum saman muni aldrei líða mér úr minni. Þú varst besti, hlýjasti, gáfaðasti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Mikið er ég heppinn að hafa þekkt þig svo vel og verið þér svo náinn. Mikið er ég lánsamur að hafa þig sem fyrirmynd. Mikið er ég heppinn að þú varst pabbi minn.

Þinn sonur,

Róbert Benedikt

Róbertsson.

Elsku pabbi.

Það var mikið högg sem ég fékk þegar Bensi bróðir hringdi og sagði mér að þú værir dáinn. Þú varst svo hress nokkrum dögum áður þegar þú hringdir í mig frá Kanarí bara til að athuga hvort allt væri í lagi hjá okkur og á Engjaveginum hjá ömmu og Gauja eða hvort ég hefði heyrt í Pétri bróðir. Þannig varst þú alltaf. Símtal í 5 mínútur bara til að sjá að allt væri í lagi þá varst þú ánægður. Síðan ég flutti aftur heim á Selfoss hefur þú fylgst vel með því hvort allir hefðu að gott og hvort eitthvað væri að frétta af gömlu vinum þínum hérna.

Þegar þið Auðbjörg komuð í heimsókn gáfuð þið ykkur alltaf góðan tíma að spjalla um alla heima og geima og svo var alltaf farið í herbergið hjá Agnari Petro að skoða dótið hans. Ég held að engin hjón hafi eins góða nærveru og þið og hjá ykkur sá ég hvernig ástin getur þroskast og enst að eilífu. Þið voruð alltaf eins og nýtrúlofuð þrátt fyrir 30 ára samband og nutuð lífsins þannig að fólk tók eftir. Alltaf á Laugavatni í hjólhýsinu og svo var húsbíllinn keyptur og þar næst tjaldvagninn og svo aftur húsbíll, endalaus ferðalög um hverja helgi á bæjarhátíðir harmonikkuhátíðir eða vestur á firði í heimsóknir. Ég sagði oft þegar ég var spurður frétta af þér að það væri allt gott frétta og ef viðkomandi vildi hitta þig þá sagði ég honum að finna næstu útihátíð þar sem harmonikka og gömlu dansarnir væru hhöfð í hávegum því þið væruð þar. Þið kunnuð að njóta lífsins og hafa gaman af lífinu á sumrin innanlands og á Kanarí lágmark einu sinni á vetri.

Þú varst alltaf kátur og léttur í skapi og komst fram við fólk sem jafningja, talaðir aldrei niður til fólks og ég man ekki eftir að hafa heyrt þig tala illa um nokkurn mann síðustu 47 árin. Það segir meira um þig að vinir mínir sem hafa unnið með þér í smíðinni í gegnum tíðina hafa allir verið í sambandi við mig, þeir segja að það hafi verið mikill lærdómur að vinna með þér því þú hafðir alltaf lausnir ef eitthvað kom upp á og ef einhver gerði mistök þá skammaðir þú ekki viðkomandi heldur sýndir réttu handtökin.

Ég hef fengið ótal samúðarkveðjur hérna á Selfossi fá vinum þínum og samferðafólki þrátt fyrir að það séu 30 ár síðan þú fluttir í bæinn, það segir mér hversu góður vinur þú varst og að flestallir sem umgengust þig hafa fengið jákvæða strauma frá þér.

Þú ert núna kominn til vina þinna Bósa, Hebba Gränz og Steina spil og ef ég þekki ykkur rétt að þá eruð þið að bralla eitthvað, sennilega að smíða kofa undir Mána...

Ég vill þakka þér allt það góða sem ég hef fengið frá þér í lífinu, þú varst góður pabbi og ég mun aldrei gleyma þeirri stund sem við áttum saman hérna heima í nóvember þegar þið Auðbjörg komuð í 7 ára afmælið hans Agnars Petro og þið bræðurnir voruð skírnavottar hjá Benedikt Jóni. Það er ógleymanleg stund sem ég mun ávalt geyma í hjartanu.

Baldur, Jill, Ívan Guðjón,

Agnar Petro og Benedikt Jón.