Feðgarnir „Allir leikararnir standa sig frábærlega í þessari uppfærslu“ en í verkinu eru allar persónur brotnar. Hilmir Snær Guðnason, Arnar Jónsson og Atli Rafn Sigurðarson í hlutverkum sínum.
Feðgarnir „Allir leikararnir standa sig frábærlega í þessari uppfærslu“ en í verkinu eru allar persónur brotnar. Hilmir Snær Guðnason, Arnar Jónsson og Atli Rafn Sigurðarson í hlutverkum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagleiðin langa eftir Eugene O'Neill. Leikarar: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hilmir Snær Guðnason. Leikmynd og búningar: Jósef Halldórsson, lýsing: Hörður Ágústsson, þýðing: Illugi Jökulsson.

Dagleiðin langa eftir Eugene O'Neill. Leikarar: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hilmir Snær Guðnason. Leikmynd og búningar: Jósef Halldórsson, lýsing: Hörður Ágústsson, þýðing: Illugi Jökulsson. Leikstjórn: Þórhildur Þorleifsdóttir. Kassinn, Þjóðleikhúsið 24. febrúar.

D agleiðin langa fer fram á heimili Tyrone-fjölskyldunnar og gerist á innan við sólarhring. Faðirinn, James Tyrone, er frægur og ríkur leikari og þarna er einnig kona hans Mary og tveir synir: James Tyrone yngri sem er leikari eins og pabbinn og Edmund Tyrone sem á að baki ferðalög, er blaðamaður sem yrkir eitthvað og glímir við heilsubrest. Verkið mun fjalla nokkuð nákvæmlega um fjölskyldu höfundarins og það var ekki frumflutt fyrr en eftir dauða hans og þá fyrr en hann hafði mælt fyrir um en hann vildi að það yrði ekki sýnt fyrr en 25 árum eftir andlát sitt.

Sviðið er stofa í miðju og tveir stigar liggja upp á efri hæð í sviðsjöðrum. Heimilisbúnaður er hóflegur, stigarnir eru laslegir en á veggjum eru margar myndir af heimilisföðurnum í ýmsum gervum sem leikari enda tekur hann ekki annað en aðalhlutverk hvort sem er á sviðinu eða eigin heimili.

Áhorfandinn sér fljótlega að heimilisfaðirinn lætur syni sína fara í taugarnar á sér og þá einkum þann eldri sem er leikari eins og pabbinn, en velgengni hans er greinilega umtalsvert minni. Hann elskar líka eiginkonuna heitt en hefur jafnframt áhyggjur af því hvernig hún plumar sig. Smátt og smátt koma svo átök og erfiðleikar upp á yfirborðið. Feðgarnir eru allir syngjandi fyllibyttur og móðirin hefur verið háð morfíni og farið í meðferð en það er spurning hvort hún geti haldið sig frá því til frambúðar.

Við fylgjumst síðan með átökum, uppgjörum og játningum persónanna og sjáum vonbrigðin þegar móðirin fellur, yngri sonurinn greinist með berkla og eldri sonurinn kemur alveg á skallanum úr bænum eftir að hafa heimsótt hóruhús, viðskotaillur og eins fullur af galli og fullþroskuð fyllibytta getur verið.

Innri átök í Tyrone-fjölskyldunni eru svo sannarlega ekki neitt léttmeti og sennilega eru jafn sjúkar fjölskyldur vandfundnar. Innbyrðis andúð er hér blönduð ást sem gerir átökin margfalt harmrænni og flóknari. Allir geta sennilega tengt eitthvað við innihald verksins þó að upplifanir og samskipti okkar flestra séu sem betur fer ekki jafn full af heift.

Allar eru persónurnar brotnar. Þrátt fyrir að hafa notið velgengni harmar faðirinn að hafa eyðilagt sig með því að leika sömu persónuna í sama kassastykkinu árum saman í stað þess að þroska sig í listinni. Móðirin grefur sig í fortíðinni með spurningum um ef og hefði og leitar sektar hjá öðrum. Eldri sonurinn er búinn að finna fjölina sína sem drykkfelldur og metnaðarlaus leikari sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu og yngri bróðirinn er þjakaður af veikindum og drykkjusýki.

Leikritið er þó ekki samfellt svartnætti, fjarri því. Dregin er upp mjög skemmtileg mynd af heimilsföðurnum sem, mögulega vegna uppruna síns, er samansaumuð nánös sem leitar alltaf ódýrustu leiðanna. Þá má finna í verkinu skemmtilega dramatíska íroníu og sprettir í ræðu eldri sonarins þegar hann kemur af hóruhúsinu eru stórskemmtilegir.

Allir leikararnir standa sig frábærlega í þessari uppfærslu. Arnar Jónsson er mjög góður sem fjölskyldufaðirinn sem sér fyrir allri fjölskyldunni, elskar konu sína innilega, þrátt fyrir vanda þeirra beggja og innra með honum ólgar reiði yfir því hve misheppnaðir synir hans séu. Hann er eins og aðrir með klæðskerasniðna skýringu sem sýnir að áfengisnautn hans er viðráðanleg. Hann hefur aldrei misst úr sýningu. Guðrún Snæfríður Gísladóttir leikur Mary vel. Hilmir Snær er harmrænn sem glæsimenni á leið til glötunar og þá ekki síður Atli Rafn sem hinn berklaveiki Edmund. Þeir takast á með orðum, pústrum og áflogum.

Verkið myndar sterka og samfellda heild eftir að Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri er búin að stytta það um næstum helming – en það er tæpir þrír tímar þrátt fyrir það. Þórhildur segist í leikskrá fyrst og fremst beina sjónum að fjölskyldunni í verkinu og það virðist skynsamlegt val. Ný þýðing Illuga Jökulssonar fer vel í munni.

Búningar eru góðir, þegar fjölskyldufaðirinn bregður sér af bæ er hann að sjálfsögðu klæddur eins og stjarna og bræðurnir og móðirin eru klædd eins og maður býst við í Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldar. Leikmyndin þjónar verkinu vel þó að þokan, sem á sennilega að undirstrika hversu villuráfandi persónurnar eru, sé ekki jafn vel heppnuð og margt annað. Tónlist styður vel við verkið – píanóleikur sem gefur smá sveiflu og minnir á píanófortíð Mary.

Sigurður G. Valgeirsson

Höf.: Sigurður G. Valgeirsson