Viðskipti Arion banki hefur sýnt lánasafni Dróma áhuga, en engin tilboð hafa komið.
Viðskipti Arion banki hefur sýnt lánasafni Dróma áhuga, en engin tilboð hafa komið. — Morgunblaðið/Ómar
Haraldur Guðni Eiðsson hjá Arion banka segir það rétt að aldrei hafi neitt erindi eða kauptilboð komið frá þeim til Dróma vegna lánasafnsins sem það fyrirtæki er með.

Haraldur Guðni Eiðsson hjá Arion banka segir það rétt að aldrei hafi neitt erindi eða kauptilboð komið frá þeim til Dróma vegna lánasafnsins sem það fyrirtæki er með. Hlynur Jónsson, stjórnarformaður Dróma, fullyrðir í grein í Morgunblaðinu í gær að Drómi hafi aldrei fengið tilboð frá bankanum og tekur Haraldur undir það en annað hefur verið gefið í skyn í fjölmiðlum. „Það er alveg rétt,“ segir Haraldur. „Við vísum bara í þær óformlegu viðræður sem áttu sér stað við þá á sínum tíma. Við nefnum hins vegar aldrei í okkar svörum að við höfum verið að ræða við stjórnvöld um kaup á safninu heldur að við höfum rætt við stjórnvöld um þessa óvenjulegu uppsetningu og ýmislegt sem tengist þessum málum.“

En þegar Haraldur talar um óvenjulega uppsetningu vísar hann til þess að innlánin hafi endað hjá Arion banka en íbúðalánin hjá Dróma. „Ástæða þess að við lögðum ekki fram formlegt tilboð var sú að viðræðurnar fóru aldrei á það stig þar sem hugmyndir aðila um aðferðir til að meta lánasafnið voru svo ólíkar,“ segir Haraldur. „En Arion banki vildi nota sömu aðferðir og notaðar voru m.a. við mat á því lánasafni sem Arion banki tók yfir frá Kaupþingi.“

Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann teldi mikla samfélagslega hagsmuni liggja í því að lánasafnið væri ekki í höndum Dróma: „Drómi er aðeins hlutafélag um eignir þrotabús, þess vegna hefur gengið illa að láta þá fylgja þeim reglum sem gilda um fyrirtæki sem vinna á þessum markaði. Það er óeðlilegt í markaðsviðskiptum að annar aðilinn, sá sterkari, hafi enga langtímahagsmuni af viðskiptasambandinu.“

Hlynur Jónsson sakar einnig Arion banka um að reyna að ná óeðlilegum afslætti í tilboðum sínum í eignasafn Dróma. Hann segir í greininni að boð Arion banka í 10 milljarða króna yfirdráttarheimildir viðskiptavina SPRON hafi fyrst verið upp á 2 milljarða, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það á endanum selt á 7,6 milljarða. Þegar Haraldur er spurður hvort þetta sé rétt frá sagt segir hann: „Nei, það er ekki rétt að Arion banki hafi boðið 2 milljarða í yfirdráttarheimildir viðskiptavina SPRON. Þeir yfirdrættir sem bankinn tók yfir voru teknir yfir á fullu verði.“

borkur@mbl.is