Íslenskur landbúnaður skapar tólf þúsund störf með beinum hætti. Ef dýpra er skoðað má ætla að hlutur íslensks landbúnaðar í atvinnulífinu sé nær því að vera um fimmtán þúsund störf og 130 milljarða velta á ári. Íslenskur landbúnaður skilaði þjóðarbúinu tólf milljörðum króna að minnsta kosti á síðasta ári í gjaldeyri. Þetta kom meðal annars fram í setningarræðu Haralds Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, á Búnaðarþingi sem hófst á sunnudaginn.
Landbúnaðurinn er mikilvægur hluti af atvinnulífi landsins, í sveit og borg. Samt er stundum talað um hann sem einhverskonar klafa um háls þjóðarinnar, afætu á ríkinu sem megi án umhugsunar fórna fyrir skjóta inngöngu í „dýrðarríkið“ ESB.
Haraldur beindi því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann yrði að gæta hagsmuna Íslands í samningaumræðunum, fyrir framtíð þjóðarinnar. „Ef það er svo að íslenskir samningamenn þora ekki að ganga fram með sterka kröfugerð eigum við sitja heima og viðurkenna að klúbburinn hentar okkur ekki,“ sagði Haraldur og hafði lög að mæla. Ef samninganefndin gengur ekki fram af hörku með hagsmuni allrar þjóðarinnar að leiðarljósi hefur hún ekkert erindi í þessa samningagerð núna. Hún ætti þá frekar að sitja heima, undirbúa sig betur og safna kjarki, því kjarklaus fer maður ekki af stað í bardaga til að verja hag heillar þjóðar.
Evrópusambandsaðildin var landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, líka hugleikin í ávarpi hans til þingsins. Steingrímur sagði að standa þyrfti fast á hagsmunum og framtíðarmöguleikum landbúnaðarins í yfirstandandi viðræðum við Evrópusambandið og tók fram að annað stæði ekki til. „Ég hef ekki hugsað mér að láta ístaðið dingla laust varðandi hagsmuni íslensks landbúnaðar í þessu máli meðan mér er falin þar á nokkur ábyrgð og hvers vegna ætti ég að gera það? Maður sem er jafn sannfærður nú ef ekki sannfærðari en áður um að það þjónar ekki best okkar hagsmunum að ganga í Evrópusambandið,“ sagði Steingrímur varðandi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það er vonandi að hann standi við þau orð.
Steingrímur hefur sagt að ef ekki náist góðir samningar um sjávarútveginn eigi að hætta samningaviðræðunum. Að til að komast að því hvort góðir samningar náist sé mikilvægt að komast í alvöruviðræður sem fyrst og láta reyna á hvað sé til staðar og ef ekkert er um að semja eigi að slíta viðræðunum. Ég vona að Steingrímur sé jafn harður til viðræðna um landbúnaðinn og gefi þar ekkert eftir, fyrir framtíð þjóðarinnar. ingveldur@mbl.is
Ingveldur Geirsdóttir