[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Valur Daníelsson , sem var fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu þegar það mætti Japan á föstudaginn, meiddist í baki í leiknum í Osaka og spilaði ekki með liði sínu, AIK frá Svíþjóð, í nótt þegar það mætir Chivas USA í Portland í...
H elgi Valur Daníelsson , sem var fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu þegar það mætti Japan á föstudaginn, meiddist í baki í leiknum í Osaka og spilaði ekki með liði sínu, AIK frá Svíþjóð, í nótt þegar það mætir Chivas USA í Portland í Bandaríkjunum. Helgi skýrði frá þessu á Twitter í dag. Helgi fór beint frá Japan til Bandaríkjanna og mætti þar í gær, sólarhring á eftir samherjum sínum, en þangað kom lið AIK á laugardaginn. Þar búa Helgi og félagar sig undir keppnina í sænsku úrvalsdeildinni sem hefst í lok mars.

Mahamadou Diarra , knattspyrnumaður frá Malí, er genginn í raðir enska úrvalsdeildarliðsins Fulham. Samningur hans við Lundúnaliðið gildir út tímabilið með möguleika á framlengingu um eitt ár. Diarra, sem er 30 ára gamall, hefur leikið 74 landsleiki fyrir Malí og hefur í þeim skorað 11 mörk. Hann leikur í stöðu varnartengiliðs. Diarra hóf feril sinn með gríska liðinu OFI. Hann hefur síðan leikið með Vitesse í Hollandi, Lyon og Mónakó í Frakklandi og Real Madrid, sem hann lék með í fjögur ár.

Kyle Walker bakvörður úr liði Tottenham hefur dregið sig út úr enska landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir vináttuleikinn gegn Hollendingum annað kvöld. Walker varð fyrir hnjaski í tapleik Tottenham gegn Arsenal á sunnudag og er ekki leikfær. Þar með hafa fjórir leikmenn helst úr lestinni en þeir Wayne Rooney , Tom Cleverley og Darren Bent boðuðu allir forföll um helgina.

Grétar Ólafur Hjartarson , markaskorarinn reyndi frá Sandgerði, er kominn aftur á heimaslóðir og leikur með Reyni í 2. deildinni í knattspyrnu í sumar. Grétar, sem er 34 ára, lék með Keflavík á síðasta ári en missti af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla. Hann hefur skorað 66 mörk í efstu deild, fyrir Keflavík, Grindavík og KR, og er sá 19. markahæsti í deildinni frá upphafi. Grétar lék síðast með Reyni fyrir 15 árum.

Þýski landsliðsmaðurinn í handknattleik, Oliver Roggisch , segist gjarnan vilja framlengja samning sinn við Rhein-Neckar Löwen. Núverandi samningur hans við félagið rennur út í vor. Roggisch er 32 ára gamall og harður í horn að taka sem varnarmaður. Þrátt fyrir mikla uppstokkun hjá liðinu upp á síðkastið segist Roggisch hafa tröllatrú á liðinu og þjálfara þess, Guðmundi Þórði Guðmundssyni .

A rnór Þór Gunnarsson , leikmaður hjá TV Bittenfeld, er fjórði markahæsti leikmaður þýsku 2. deildarinnar í handknattleik um þessar mundir. Arnór Þór, sem er á sínu öðru keppnistímabili með liðinu, hefur skorað 141 mark í 21 leik, þar af 65 mörk úr vítakasti. Hann er eini Íslendingurinn á lista yfir fimmtán markahæstu leikmenn deildarinnar. Ole Rahmel hjá Tusem Essen er markahæstur með 170 mörk.