Efni Hjónin Sveinn Sveinsson og Margrét Steinunn Nielsen gáfu Silfurtunglinu myndir og úrklippur í fyrradag. Pétur Pétursson er lengst til vinstri en hönnuðirnir Almar Alfreðsson og Jón Ingiberg Jónsteinsson eru til hægri.
Efni Hjónin Sveinn Sveinsson og Margrét Steinunn Nielsen gáfu Silfurtunglinu myndir og úrklippur í fyrradag. Pétur Pétursson er lengst til vinstri en hönnuðirnir Almar Alfreðsson og Jón Ingiberg Jónsteinsson eru til hægri. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Margir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga minningar um skemmtanir í veitingahúsinu Silfurtungli, sem var starfrækt á efri hæð Austurbæjarbíós í Reykjavík á árunum 1955 til 1977.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Margir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga minningar um skemmtanir í veitingahúsinu Silfurtungli, sem var starfrækt á efri hæð Austurbæjarbíós í Reykjavík á árunum 1955 til 1977. Ákveðið hefur verið að opna Silfurtunglið á ný á sama stað í lok næsta mánaðar og gefa gestum kost á að rifja upp gamla tíma.

„Þetta verður létt og skemmtilegt, ódýr veitingastaður í bistró-stíl með uppákomum í leiklist og tónlist fyrir alla,“ segir Steinn Óskar Sigurðsson, matreiðslumaður og rekstrarstjóri Silfurtunglsins. Til að byrja með verður opið á kvöldin frá miðvikudegi til sunnudags og rými verður fyrir um 180-190 manns í sæti.

„Draumur í dós“

Kristján Þorgrímsson, afi Péturs Péturssonar, byggði húsið, Pétur, pabbi hans, var sýningarmaður í bíóinu og Pétur lék sér í húsinu sem gutti, byrjaði sem dyravörður 14 ára og var sýningarmaður um árabil. „Þetta er draumur í dós,“ segir hann um fyrirhugaða opnun veitingastaðarins. „Silfurtunglið var einn helsti staðurinn í bænum frá því að hann var opnaður og þar til honum var breytt í Snorrabæ.“

Silfurtunglið var vinsæll dansstaður um helgar og síðdegis á sunnudögum voru þar oft unglingadansleikir. Trix var lengi hljómsveit hússins og Flowers spilaði þar iðulega. Reyndar var Austurbæjarbíó einn helsti hljómleikastaður landsins og haft hefur verið á orði að ónefndir skrækir hafi fyrst heyrst hérlendis, þegar hljómsveitin Kinks hélt þar hljómleika 1965.

Eigendur hússins vilja halda sögu Silfurtunglsins hátt á lofti og margir hafa brugðist við auglýsingum eftir myndum eða hlutum sem tengjast húsinu á umræddu 20 ára tímabili. Steinn Óskar segir að Almar Alferðsson vöruhönnuður og Jón Ingiberg Jónsteinsson, grafískur hönnuður, hafi fengið það verkefni að hanna staðinn með sögu hans í huga. Innréttingarnar séu í gamla stílnum, gömul húsgögn í bland við ný húsgögn í gömlum stíl. Myndir af stjörnum, sem spiluðu í húsinu, koma til með að prýða veggina og myndbönd frá tónleikum í húsinu verða látin rúlla í betri stofu. „Saga hússins verður sýnd í máli og myndum og endurspeglar þannig stemninguna eins og hún var,“ segir Steinn Óskar. Hann bætir við að reynt verði að skapa sambærilega stemningu og var á árum áður. Sviðið með gömlum hljóðfærum verði til taks hvenær sem er. „Þetta verður nokkurskonar Food&Fun. Matarlist, leiklist og tónlist verða allsráðandi og við ætlum að reyna að tvinna þetta saman eins mikið og við getum.“