Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson
Eftir Ragnar Önundarson: "Væri ráð að þekja Alþingishúsið innan með speglum svo þingmenn geti séð sjálfa sig eins og aðrir sjá þá?"

Hér eru meirihlutastjórnir allsráðandi, og það stýrir orðræðunni. „Æ góði þegiðu,“ er sagt við minnihlutann. Hans framlag er upphrópanir því hann hefur lítil áhrif og ber litla ábyrgð. Í Skandinavíu eru minnihlutastjórnir algengar. Til að koma málum fram verða þær að koma vel fram við aðra flokka, sem á móti axla ábyrgð. Orðræðan er málefnalegri og kurteislegri. Hér stunda popúlistar lýðskrum og hvetja til rangra ákvarðana. Nokkur málefni eru áberandi.

Verðtrygging

Verðbólguárin 1975-1985 urðu tilfærslur á eignum frá sparifjáreigendum til skuldara sem nutu forgangs að lánsfé. Stjórnvöld ákváðu vexti sem ekki héldu í við verðbólgu. Börn og aldraðir geta ekki varist en skuldarar eru fólk sem meira fer fyrir. Þeir ná eyrum þingmanna. Án verðtryggingar verða á ný til verðbólguhagsmunir. Krafist verður neikvæðra raunvaxta. Fólk flýr þá með sparifé sitt, kaupir íbúðir til útleigu, listaverk eða annað lausafé. Á verðbólguárunum dróst sparifé saman um helming og vaxtamunur banka tvöfaldaðist. Atvinnulífið bjó við fjárskort. Verðbólgan er vandamálið, ekki verðtryggingin. Ef þingmenn risu undir þeirri ábyrgð sem þeir sóttust eftir og voru kjörnir til að bera væri verðbólga ekki vandamál.

Skuldir heimilanna

Pólitíkusar hafa slegið sér upp á hugmynd um niðurfellingu lána, án þess að segja hvert á að sækja fé til þess. Dómur um gengistryggð lán er nýtt tilefni. Allir vita að eina leiðin væri að hækka skatta. Helgi Hjörvar hikar ekki við að lofa slíku í nafni „réttlætis“. Á ríkið að taka fé frá þeim sem fóru varlega og skulda þ.a.l. lítið og færa til fólks sem þó getur greitt skuldir sínar? Að flytja byrðina af hruninu til þeirra sem fóru varlega væri óréttlátt. Meirihluti þjóðarinnar kynni ekki að meta það.

Sjávarútvegur

Árið 1991 varð kvótinn framseljanlegur. Hagræðing hófst, gömul og óhagkvæm skip voru tekin úr umferð eitt af öðru. Kvótinn þjappaðist á færri, stærri og öflugri skip. Burðug fyrirtæki urðu til. Krónan styrktist og þjóðin naut vaxandi kaupmáttar, sem var arður hennar af auðlindinni. Ef rekstri útflutningsgreina er íþyngt lækkar gengið. Við það hækkar innflutningsverð og neysluvísitala og þar með skuldir. Hvernig geta þingmenn sem tala um skuldavanda heimila stutt röskun á kvótakerfinu? Fái útflutningsgreinar að dafna styrkist krónan, almenningi í hag. Gjald fyrir afnot kvótans staðfestir að hann er sameign þjóðarinnar.

Gjaldmiðill

Til að taka upp evru yrðum við fyrst að ganga í ESB. Það tæki fáein ár. Svo tæki 5-7 ár að taka hana upp. Við búum því við krónuna í 7-10 ár enn. Að fara vel með hana þessi ár yrði góður undirbúningur. Össur Skarphéðinsson segir í Mbl-grein 9. febrúar sl.: „Með agaðri hagstjórn og hugvitsamlegri nýtingu einstakra auðlinda eigum við að geta búið Íslendingum framtíðarinnar bestu lífskjör sem þekkjast – en til þess þurfum við annan og traustari gjaldmiðil en íslensku krónuna.“ Þetta er ágætt alveg að bandstrikinu. Niðurlagið ætti að vera svona „– en til þess þurfum við aðra og traustari þingmenn en við höfum nú“. Krónan er bara verkfæri, ef farið er vel með verkfæri endast þau vel.

Lífeyrissjóðir

Uppgrip eru nú hjá lýðskrumurum vegna lífeyrissjóða. Kjarni skýrslunnar er að þeir fóru út af sporinu í lánum til fyrirtækja. Reglur ýttu undir kaup á „skráðum verðbréfum“. Svonefnd „skuldabréfaútboð“ voru skráð en þau voru lán án trygginga. Sjóðfélagar hafa alltaf þurft að setja örugg veð fyrir lánum. Þetta verður að laga, sjóðirnir eru til fyrir sjóðfélagana. Margir hafa fundið sjóðunum allt til foráttu og talið þá eina geta komist hjá tapi í fjármálaáfalli, sem er fráleitt. Virðum það góða starf sem unnið er í lífeyrissjóðunum. Úrvalsfólk með mikla reynslu úr félagsmálum og atvinnulífi á ekki skilið að vera skotspænir lýðskrumara.

Dómsmál

Forsætisráðherra hefur nánast ærst af fögnuði þegar menn úr fjármálageiranum eru hnepptir í gæsluvarðhald, sagði fv. ríkissaksóknari. Fjölmiðlar styðja við bakið á dómurum og gefa til kynna að þeir muni hafa verra af ef þeir dæmi ekki „rétt“. Reynt er að misnota dómstól, Landsdóm, í stjórnmálabaráttu. Þrískipting ríkisvalds og sjálfstæði dómstóla eru undirstöðuatriði. Yfirgangi við dómstóla verður að linna.

Út úr sundurþykkjunni

Þegar áfallið í Útey dundi yfir norsku þjóðina naut hún áfallahjálpar leiðtoga sinna. Við búum við sundurþykkju og lýðskrum kjörinna fulltrúa, sem kyndir undir reiði. Væri ráð að þekja Alþingishúsið innan með speglum svo þingmenn geti séð sjálfa sig eins og aðrir sjá þá? Forseti Íslands er fv. prófessor í stjórnmálafræði, þingmaður og ráðherra. Forsetakosningar eru ógæfulegar í ár. Hvaða sómafólk vill gerast bitbein þjóðar í reiðikasti? Hentugra er að forsetinn verði endurkjörinn og sinni vandamálinu. Hann hefur að vísu dottið af baki, tekið þátt í harðvítugri pólitík og stuðningi við loftkennda útrás. Reynslunni ríkari hefur hann þó staðið í ístöðunum að undanförnu, t.d. í Icesave málinu og talað máli okkar erlendis. Getur hann leitt þjóðina út úr eyðimörk lýðskrums og popúlisma?

Höfundur er viðskiptafræðingur og fv. bankamaður.

Höf.: Ragnar Önundarson