Hrólfur Hraundal
Hrólfur Hraundal
Frá Hrólfi Hraundal: "Nú er nokkuð ljóst að ætlun JóGrímu er að næstu jarðgöng á eftir Héðinsfjarðargöngum skuli verða Vaðlaheiðargöng og skiptir engu máli hvað þau kosta, Steingrím vantar bót á bót."

Nú er nokkuð ljóst að ætlun JóGrímu er að næstu jarðgöng á eftir Héðinsfjarðargöngum skuli verða Vaðlaheiðargöng og skiptir engu máli hvað þau kosta, Steingrím vantar bót á bót. Það væri í sjálfu sér í góðu lagi ef ekki væri með því verið að stíga ofan á heiðursfólk enn og aftur. Í Vestfjarðagöngum stendur að þau hafi verið grafin 1996 og eru þá liðin að minnsta kosti sextán ár frá því að styr stóð um hvort Norðfjarðar- eða Vestfjarðargöng skyldu grafin fyrr. Norðfirðingar gerðu þá heiðursmannasamkomulag við Vestfirðinga og stjórnvöld þess efnis að Norðfjarðargöng skyldu vera næst í röðinni á eftir Vestfjarðagöngum. Síðan hafa ómerkingar kúkað á slóðina og gert að engu þetta samkomulag og þar með þessa þörfu framkvæmd.

Þörfu framkvæmd, vegna þess að þar er stærsta og löngum afkastamesta byggðarlag á Austurlandi, sem þó er aðeins með tengingu við landið um rottuholu sem aldrei skyldi hafa verið boruð. Oddsskarðsgöng eru ekki barn síns tíma eins og skámæltir afglapar hafa reynt að halda fram sjálfum sér til verndar. Þau eru afglöp sem engum, hvergi í heiminum, hefði látið sér detta í hug að samþykkja nema fyrir greiðslu í gulli og hvar skyldi það gull vera? Allar vegabætur eru til gagns, en að bora göng frá Egilsstöðum og norður í Fellabæ er ekki endilega næst á dagskrá. Þar er nú þegar til ágætur vegur og brú, líkt og á milli Akureyrar og Fnjóskadals. Þar með er ég ekki að segja að Vaðlaheiðargöng eigi ekki rétt á sér, heldur að forgangsröð var til með samkomulagi heiðursmanna og full ástæða til að standa við hana.

Það gæti reynst skeinuhætt að snuða landann

Síðan 1996 hafa forsendur breyst þannig að vegtengingar milli byggðarlaga á Austurlandi kalla enn frekar á framkvæmdir, ekki bara til handa Norðfirðingum, þær eru þjóðhagslega hagkvæmar þó að reiknimeistarar JóGrímu og aðrir Gnarristar kunni ekki að telja á sér puttana. Með í forsendum fyrir álveri við Reyðarfjörð voru samgöngur að nútímahætti, sem og eðlileg aðkoma að heilsugæslu. Framkoma íslenskra stjórnvalda hvað varðar efndir í því máli rýrir mjög trúverðugleika þeirra til framtíðar. Allt er þetta þó léttvægt hjá þeirri staðreynd að Reykjavík þarf andvægi og það andvægi verður aðeins til með því að efla byggðarkjarna á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Ein af meginforsendum þess að treysta þessa byggðarkjarna er að bæta samgöngur til þess að þjónusta gagnist sem best.

Andvægi við Reykjavík er lífsspursmál, til þess að hér geti þrifist vitrænt samfélag. Á meðan við landsbyggðarfólk reynum að velja okkur skynsamt fólk til að gæta hagsmuna okkar þá kjósa Reykvíkingar trúða til að stjórna borginni sem á að heita höfuðborg okkar allra Íslendinga, en er í raun bara þeirra svo sem flugvallarmál sanna. Okkur landsbyggðarfólki er ekki boðið upp á að hafa nokkuð um það að segja og þess vegna gerum við þá kröfu að við gamalt heiðursmannasamkomulag verði staðið nú þegar og Norðfjarðargöng og svo Hrafnseyrarheiðargöng og svo Seyðisfjarðargöng verði að veruleika til að rétta af núverandi slagsíðu á okkar gjöfula landi.

HRÓLFUR HRAUNDAL,

vélvirki.

Frá Hrólfi Hraundal

Höf.: Hrólfi Hraundal