Taxi Eldsneytiskostnaður og annar rekstrarkostnaður leigubíla hefur rokið upp úr öllu valdi.
Taxi Eldsneytiskostnaður og annar rekstrarkostnaður leigubíla hefur rokið upp úr öllu valdi. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Leigubílstjórar eru margir hverjir að kikna undan kostnaðarhækkunum og þar vega þyngst verðhækkanir á dísilolíu og bensíni að undanförnu. „Ástandið er orðið mjög alvarlegt.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Leigubílstjórar eru margir hverjir að kikna undan kostnaðarhækkunum og þar vega þyngst verðhækkanir á dísilolíu og bensíni að undanförnu. „Ástandið er orðið mjög alvarlegt. Olían hækkar stanslaust og við fáum engar niðurgreiðslur af neinu tagi,“ segir Eysteinn Georgsson, leigubílstjóri í Reykjanesbæ, í samtali við Morgunblaðið. „Um leið og verðið fer upp í 300 krónur er ég hættur,“ bætir hann við og gerir fastlega ráð fyrir að fjöldi annarra bílstjóra muni gera slíkt hið sama.

Hærri kostnaður en ekki er svigrúm til að hækka fargjöld

Kostnaður við rekstur leigubifreiðar hefur hækkað gríðarlega að sögn Eysteins og hann telur ekki svigrúm til að hækka fargjöldin meira en orðið er.

„Það eru á bilinu 700-800 bílstjórar á landinu,“ segir Eysteinn, sem telur lífsnauðsynlegt að ríkið komi til móts við þessa atvinnugrein svo hún geti borið sig við núverandi aðstæður, t.d. með því að lækka álögur á eldsneyti eða að leigubílar fái að kaupa litaða olíu. Fólksflutningarútur njóti niðurgreiðslna á olíukostnaði en aldrei hafi fengist neitt fyrir leigubíla. „Þetta er deyjandi atvinnuvegur ef fram heldur sem horfir,“ segir hann.

Eysteinn sem er formaður Freys, félags leigubílstjóra, segir að akstur með farþega frá Leifsstöð til Reykjavíkur hafi skipt miklu máli fyrir leigubílana á Suðurnesjum en hlutur þeirra í akstri flugfarþega hafi minnkað verulega og sé kominn niður í 2%. „Það eru kannski 20 til 30 bílar að berjast um þetta að jafnaði yfir sumarið. Oft kemur það fyrir að maður hefur ekki nema um 2.000 kall upp úr þessu á dag.“

Dýrar tryggingar og varahlutir

Eysteinn er á dísilbíl og segir að 80 lítra tankur dugi í 6 til 7 ferðir til Reykjavíkur. Lítraverðið er komið yfir 260 kr., sem þýðir að eldsneytiskostnaður er ríflega 3.000 á ferð milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar.

Að sögn Eysteins er kostnaður við tryggingar leigubíla einnig mjög þungur. Tryggingafélögin flokki leigubíla með bílaleigubílum, þar sem mestu tjónin eru yfir heildina. „Það er náttúrlega langt út úr kortinu því iðgjöldin hlaupa á fleiri hundruð þúsunda fyrir einn bíl.“ Hann nefnir fleiri dæmi. Þannig hafi t.d. kostnaður hans vegna dekkjaskipta hækkað um 40 þúsund á milli ára. Og varahlutaverðið sé orðið helmingi hærra en það var fyrir tveimur árum.

REKSTURINN ÞYNGIST

Kostar 5-6 milljónir á ári

„Ég hef reiknað þetta á ársgrundvelli og þá kemur í ljós að eins og ástandið er núna þá borgum við ekki undir fimm til sex milljónum kr. á ári að meðtöldum tryggingum og öðrum kostnaði,“ segir Eysteinn Georgsson leigubílstjóri.

„Það endurnýjar enginn bíl í dag. Það er gjörsamlega út úr kortinu og þarf ekki einu sinni að láta sér detta í hug að reyna það. Bíllinn sem ég ek í dag er kominn yfir 557 þúsund kílómetra. Mér finnst skelfilegt að horfa upp á að það eru komnir 15 og upp í 20 ára gamlir bílar í þessa vinnu,“ segir hann. Að sögn Eysteins getur mánaðarreksturinn verið í mínus ef viðbótarkostnaður bætist við vegna viðgerða og viðhalds á bílnum.