Skíðaganga
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Akureyringurinn Brynjar Leó Kristinsson, hefur tekið miklum framförum í skíðagöngu á undanförnum misserum og virðist eiga ágæta möguleika á því að vinna sig inn á Vetrarólympíuleikana í Rússlandi árið 2014.
Brynjar hefur lokið keppni á FIS-mótaröð í Svíþjóð og Noregi og gerði það með glæsibrag. Á Sverigecupen í Ulricehamn varð Brynjar í 22. sæti í 11 km göngu með frjálsri aðferð og náði nægilega mörgum FIS-stigum til að ná ólympíulágmarki. Keppnisréttinn verða skíðagöngumenn þó að vinna sér inn á tímabilinu frá júlí 2012 til 19. janúar 2014 og kálið er því ekki sopið þó í ausuna sé komið.
Þýtur upp heimslistann
Þessi athyglisverði árangur Brynjars kemur hreinlega til með að þeyta honum upp heimslistann. Hann ætti núna að vera í kringum 800. sæti á heimslistanum en var í 1715. sæti og er því um að ræða bætingu upp á liðlega 900 sæti.Brynjar fékk 94 FIS-stig fyrir gönguna og varð hann liðlega 1,40 mínútum á eftir Svíanum Tiio Soderhilem sem sigraði en hann keppir í heimsbikarnum.
Daníel keppti síðast á ÓL
Brynjar er 24 ára gamall og miðað við þessa frammistöðu gæti hann orðið fyrsti íslenski skíðagöngumaðurinn til að komast á Ólympíuleika í 20 ár. Daníel Jakobsson keppti síðast í Noregi árið 1994. Daníel vann sig einnig inn á leikana árið 1998 í Japan en var sestur í helgan stein og gaf því ekki kost á sér.Ólafur Th. Árnason náði reyndar einnig lágmarki fyrir leikana í Bandaríkjunum árið 2002 en það var rétt fyrir leikana og fresturinn var útrunninn. Þeir Daníel og Ólafur eru báðir Ísfirðingar en að þeim undanskildum hefur Íslendingum reynst erfitt að ná lágmörkum í skíðagöngu á undanförnum áratugum.