Kristinn Andersen
Kristinn Andersen
Eftir Kristin Andersen: "Í hópi verkfræðinga er fjöldi frumkvöðla sem hafa byggt upp fyrirtæki og atvinnugreinar, sem leggja grunninn að hagsæld á Íslandi um ókomin ár."

Verkfræði og nýting tækniþekkingar á drjúgan hlut í þeim stórstígu efnahagslegu framförum sem íslenzkt samfélag tók á liðinni öld. Fyrsti íslenski verkfræðingurinn var Sigurður Thoroddsen, sem hóf störf hérlendis árið 1893, að loknu námi í Kaupmannahöfn. Verkefni hans fólust einkum í að nýta verkþekkingu þess tíma við gerð vega og brúa, í landi þar sem samgöngur á landi höfðu verið nánast óbreyttar um slóða og vegleysur í þúsund ár. Þegar komið var fram á árið 1912 hafði verkfræðingum þegar fjölgað nokkuð og þeir voru 13 verkfræðingarnir og „aðrir verkfróðir menn“ – eins og segir í stofnfundargerð félagsins – sem komu saman á Hótel Reykjavík til þess að stofna Verkfræðingafélag Íslands. Auk mannvirkjagerðar voru verkfræðingar á Íslandi þá þegar farnir að fást við vélvæðingu, beizlun orku úr fallvötnum og símavæðingu landsins – hina rafrænu upplýsingatækni þess tíma.

Verkfræði á 21. öldinni

Viðfangsefni verkfræðinga í nútímasamfélagi eru afar margbreytileg. Hérlendis er kunnugleg myndin af byggingarverkfræðingnum að störfum við hönnun og stjórnun mannvirkjagerðar, í samgöngum og öðrum framkvæmdum, í byggð eða í óbyggðum. Dreifikerfi raforku, hita og vatns eru einnig hönnuð af verkfræðingum, rétt eins og dreifikerfi síma, sjónvarps og netsins. Og ennfremur standa verkfræðingar á bak við rafeindatæknina í tölvum og símum, heilbrigðistæknina í hátæknisjúkrahúsunum, framleiðsluferlin í efna- og matvælaiðnaði, og svo má áfram telja. Hérlendis er í hópi verkfræðinga fjöldi frumkvöðla sem hafa byggt upp fyrirtæki og atvinnugreinar, sem leggja grunninn að hagsæld á Íslandi um ókomin ár.

Verkfræðinám á Íslandi

Verkfræðingafélag Íslands stuðlaði að því að fyrsti áfangi verkfræðikennslu hófst hérlendis haustið 1940 og félagið hefur til þessa dags látið sig varða menntun verkfræðinga. Verkfræði er núna kennd við tvo háskóla á Íslandi, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, en við báða skólana hefur verið tekið mið af verkfræðinámi eins og það gerist bezt í háskólum erlendis. Grunnur að verkfræðinámi hérlendis er þriggja ára B.S. nám og M.S. nám til viðbótar gefur rétt til að nota starfsheitið verkfræðingur. Aukið framboð á framhaldsnámi hefur auðveldað nemendum að ljúka náminu alfarið hérlendis, en með samningum við aðra háskóla víða um heim gefast einnig kostir á að taka hluta námsins erlendis. Með þessu móti eflum við rannsóknir og þróun á sviði verkfræði hér heima, en byggjum jafnframt upp tengsl við nám og störf í verkfræði í öðrum löndum.

Einar B. Pálsson – minning á aldarafmæli

Á sl. ári lézt Einar B. Pálsson, verkfræðingur, sem hefði orðið hundrað ára í dag, 29. febrúar og því nánast jafn gamall félaginu sem hann starfaði með stærstan hluta liðinnar aldar. Í tilefni þess býður Háskóli Íslands í dag til málþings um Einar og störf hans, ásamt Verkfræðingafélagi Íslands og Reykjavíkurborg.

Einar varð stúdent á alþingishátíðarárinu 1930. Hann ákvað að leggja fyrir sig verkfræðinám og sækja það til Þýzkalands, sem þá var nýlunda hérlendis, og hann útskrifaðist með byggingarverkfræðipróf í Dresden árið 1935. Einar átti langan og farsælan starfsferil hérlendis, hjá embætti bæjarverkfræðings í Reykjavík og síðar í öðrum verkfræðistörfum fyrir ört vaxandi höfuðborg, en síðari hluta starfsævinnar starfaði Einar sem prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands. Jafnframt tók Einar virkan þátt í félagsmálum á ýmsum vettvangi, en hér er sérstaklega getið starfa hans fyrir Verkfræðingafélagið, þar sem hann starfaði m.a. í stjórn og sem formaður um tíma. Þá ber að minnast frumkvöðlastarfs hans að orðanefnd byggingarverkfræðinga sem hann skilaði af sér með útgáfu íðorðabókar árið 2007, þá kominn á 96. aldursár.

Verkfræðingafélag Íslands fagnar 100 ára afmæli á þessu ári, en félagið var stofnað 19. apríl 1912. Í tilefni afmælisársins mun félagið vekja athygli á verkfræði og störfum verkfræðinga með ýmsum hætti á komandi mánuðum. Á þessum degi er vel við hæfi að horfa um öxl og minnast Einars B. Pálssonar á hundrað ára afmælisdegi hans um leið og við horfum fram á næsta árhundrað Verkfræðingafélags Íslands og tækifæra verkfræðinga á nýrri öld.

Höfundur er formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Höf.: Kristin Andersen