Mögnuð Guðrún Á. Símonar
Mögnuð Guðrún Á. Símonar
Sjónvarp er frábær miðill til þess að horfa um öxl og þáttur um söngkonuna Guðrúnu Á. Símonar heitna, sem RÚV sýndi á sunnudagskvöldið, var perla.

Sjónvarp er frábær miðill til þess að horfa um öxl og þáttur um söngkonuna Guðrúnu Á. Símonar heitna, sem RÚV sýndi á sunnudagskvöldið, var perla.

Kafli úr þætti frá 1978 er óborganlegur, en þar ræðir Árni Johnsen við Guðrúnu og Þuríði Pálsdóttur óperusöngvara.

„Ekki rétt, Níní?“, sagði Guðrún í tvígang og beindi orðum sínum til vinkonunnar. Heimilislegt og flott.

Þuríður varð ólétt þegar þær voru í London í námi.

Guðrún: „Hún uppgötvaði, elsku stúlkan, að hún var ófrísk. Ég varð svo móðguð af því að hún sagði mér ekki.“

Þuríður: „Það var ekki hægt að segja henni það.“

Johnsen: „Nú?“

Þuríður: „Nei. Kona eins og hún, sem fer 19 ára gömul, af því að maður kyssir hana, oní Líkn til að láta gegnumlýsa sig til að vita hvort hún sé ófrísk. Ég gat ekki leitt hana í allan sannleik hvernig þetta var. Ég gat alls ekki talað um þetta við hana.“

Guðrún: „Það var sennilega, að hún vildi ekki segja mér, af því að ég var hrein mey. Og geri bara aðrir betur; ég var það til 24 ára aldurs...“

Johnsen: „Það þætti gott í dag.“

Guðrún: „... þá féll ég.“

Skapti Hallgrímsson

Höf.: Skapti Hallgrímsson