Ásta Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 7. júní 1930. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. febrúar síðastliðinn.

Útför Ástu var gerð frá Árbæjarkirkju 21. febrúar 2012.

Það er skörungskona sem gengin er, þegar Ásta Bjarnadóttir kveður. Hún var ein af þeim sem var ákaflega dýrmætt að eiga samleið með og eiga margar minningar sem kalla fram ríkt þakklæti. Leiðir okkar Ástu lágu saman fyrir mörgum áratugum. Ég var þá ungur prestur og hóf samstarf með sr. Guðmundi manni hennar. Það samstarf varð afskaplega náið, bæði í starfi og félagsmálum, vinátta sem varð mikils virði. Ég lærði þá þegar að líta upp til hennar Ástu og finna það hversu heilsteypt hún var í öllu. Það gefur auga leið að á langri ferð í þeim störfum sem lágu fyrir okkur kollegum, að oft þurfti að íhuga varlega, sjá allt frá mörgum hliðum.

Ég minnist margra stunda þar sem Ásta fylgdist með, glaðvær, ákveðin og lífsvitur. Þá var oft bent á þær hliðar sem skiptu máli og hún sá. Ég minnist að hafa þurft á huggun að halda, – þess þurfa prestar líka, og Ásta umvafði með þeirri hlýju og umhyggju, sem skipti miklu. Alltaf fylgdist hún með, – spurði um börnin. Það var gott að vita af bæninni sem maður vissi að fylgdi. Það var gott að eiga hana Ástu að vini.

Þau sr. Guðmundur og Ásta voru kölluð til ábyrgðarmikilla starfa. Á Hvanneyri fyrst og síðan brautryðjendastarfið í Árbæjarsókn, þar sem þurfti að byggja frá grunni. Þar geta engir skilið til fulls hversu mikið á reynir, nema þeir sem staðið hafa í sömu sporum. Þar hafði hún Ásta áhuga og ábyrgð, einstaklega uppörvandi í hressileikanum, sú sterka sem stóð allt af sér. Það var líka gott og lærdómsríkt að finna hvað sr. Guðmundur sá það vel og var þakklátur fyrir hana Ástu sína. Þannig nálægð yljar líka þeim sem í kring eru.

Hún var sannarlega skörungur, hlýr og dýrmætur vinur. Með slíku fólki eru það forréttindi að starfa og eiga saman trúna á þann Guð sem annast manneskjurnar og veitir þeim styrk. Á kveðjustundum styrkir sú trú, gefur sýn til þess eilífa, þar sem frelsarinn er og lætur sína hittast á ný. Við Emilía þökkum í gleði góða vináttu.

Valgeir Ástráðsson.

Er við kveðjum hana Ástu minnumst við hennar með þakklæti í huga. Fyrir tæpum 30 árum vorum við svo heppin að flytja í næsta hús við þau Ástu og Guðmund. Það er mikils virði að kynnast góðum grönnum og það voru þau hjón svo sannarlega.

Ásta var kona sem ræktaði garðinn sinn á svo margan hátt. Hún var áræðin, ósérhlífin og vílaði ekki fyrir sér að takast á við hlutina. Auk þess var hún fróð og skemmtileg og vinur vina sinna. Margt var hægt að læra af Ástu, hún fylgdist með náttúrunni og kunni vel til verka á mörgum sviðum.

Hún fylgdist með atferli og kvaki fuglanna og brumi birkisins og vissi hvenær óhætt var að hefja vorverkin, þannig fór hún eftir eigin hyggjuviti.

Þegar Ásta var komin út í garð vissum við, að rétti tíminn var kominn til að taka til hendinni. Þegar fór að líða að vori fylltust allir gluggar hjá Ástu af blómapottum, hún var þá búin að sá fyrir sumarblómum og matjurtum sem hún nýtti í hollusturétti enda afbragðskokkur.

Ásta sýndi fjölskyldu okkar umhyggju og áhuga. Þegar við fórum að heiman í lengri ferðir vorum við vön að kveðja Ástu og biðja hana að líta eftir húsinu okkar, alltaf var það sjálfsagt og okkur fylgdu góðar ferðaóskir.

Nú eftir strangan vetur fer brátt að hlýna og birta á ný.

Við kveðjum Ástu í síðasta sinn og sendum Guðmundi og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Þóra og Bjarni.