Bjarni Kristinn Þorgeirsson fæddist á Hæringsstöðum í Stokkseyrarhreppi 4. maí 1926. Hann lést 28. janúar 2012.

Útför Bjarna Kristins var gerð frá Gaulverjabæjarkirkju 11. febrúar 2012.

Við bræðurnir kynntumst Bjarna þegar við komum í sveit á Hæringsstöðum á unga aldri og vorum þar í vist á sumrin fram á unglingsár.

Bjarni var barngóður og þolinmóður maður og nutum við sumranna á Hæringsstöðum ekki síst vegna samverustundanna með Bjarna. Hann kenndi okkur réttu handtökin við hin ýmsu verk auk þess að kynna fyrir okkur gamalt og nýtt verklag, til að mynda gerði hann upp fyrir okkur orf og ljá sem hann kenndi okkur að brúka. Ávallt þegar eitthvað þurfti að sýsla fengum við okkar verkfæri og tæki og hlutverk í verkefninu. Bjarni var ákaflega næmur á dýr og kenndi okkur hvernig ætti að umgangast þau og virða enda var afraksturinn ávallt mjög góður. Minnisstætt er hvernig hann tók þátt í okkar áhugamálum, hjálpaði okkur að laga hestagirðingar, bera á skikann, sækja hrossin, járna. Allt þetta gerði hann af elju og áhuga þó svo að þegar litið er um öxl þá sér maður að þetta var frekar fyrir okkur en að hann hafi verið að sinna eigin áhugamálum. Á mánudögum vorum við karlarnir einir á bænum og þá elduðum við gjarnan grásleppu í sameiningu. Þetta var ekki flókin matargerð en augljóst að Bjarna líkaði hún vel og eftir að hafa spurt okkur nokkrum sinnum af sinni einstöku tillitssemi hvað við vildum í matinn var það þegjandi samkomulag okkar á milli að mánudagsmaturinn var grásleppa.

Bjarni var ekki hamhleypa til verka en hlutirnir voru í föstum skorðum og höfðu sinn vana gang. Hins vegar voru smíðar honum einkar hugleiknar og nutum við þess því hann hafði einstakt lag á því að virkja okkur með sér í smíðavinnunni. Þannig lærðum við að rafsjóða, logsjóða og ýmislegt annað sem strákar á þessum aldri fengi ekki annars að reyna. Síðar þegar við urðum eldri og komum í okkar árlegu verkefni í sveitinni, að taka þátt í réttunum, urðum við þess áskynja að Bjarni var vel lesinn, hafði mikinn áhuga á pólitík og hinum ýmsu dægurmálum, sem hann fylgdist vel með. Hann var viðræðugóður og skemmtilegur. Við kveðjum þennan góða vin, sem svo lengi hefur verið hluti af okkar lífi, með hlýhug.

Kveðja,

Þorsteinn og Guðmundur.