Hreyfing er einfaldlega hluti af lífinu sjálfu og gerir krökkunum gott. Foreldrarnir hafa ótrúleg áhrif til að auka áhuga barna á hreyfingu og Skólahreysti er hvatning og vekur áhuga eldri jafnt sem yngri nemenda grunnskólanna. Þetta segir fólk sem starfað hefur við þjálfun og íþróttir og fylgist vel með keppninni sem höfðar til allra aldurshópa.
Hreyfing er einfaldlega hluti af lífinu sjálfu og gerir krökkunum gott. Foreldrarnir hafa ótrúleg áhrif til að auka áhuga barna á hreyfingu og Skólahreysti er hvatning og vekur áhuga eldri jafnt sem yngri nemenda grunnskólanna. Þetta segir fólk sem starfað hefur við þjálfun og íþróttir og fylgist vel með keppninni sem höfðar til allra aldurshópa.
Guðfinna Tryggvadóttir
Áhuginn er smitandi
„Skólahreysti hefur vakið jákvæðan áhuga grunnskólanema á öllum aldri. Keppnin fer fram meðal nemenda 9. og 10. bekkjar en áhrifanna gætir víðar og þetta hefur smitað út frá sér. Sjálf kenni ég mest í yngstu bekkjum grunnskólans, það er bæði sund og almennar íþróttir, og finn að krakkarnir í 4. og 5. bekk fylgjast vel með þessu og og segja má að Skólahreysti hafi hvatt þau til dáða,“ segir Guðfinna Tryggvdóttir, íþróttakennari í Vallaskóla á Selfossi.Einn af jákvæðu póstunum við Skólahreysti, að sögn Guðfinnu, er að keppnin ýtir undir t.d. þá krakka sem ekki finna sig í boltagreinum. „En stóra málið er auðvitað að umfjöllunin er jákvæð og það smitar auðvitað út frá sér,“ segir Guðfinna. „Svo er þetta líka alveg frábært sjónvarpsefni sem fólk á öllum aldri hefur gaman af því að fylgjast með. Ég finn það bara hér á mínum heimi. Nei, ég held að þó krakkarnir leggi hart að sér í keppninni sé hún á engan hátt skaðleg eða þannig að krakkarnir reyni á sig um of. Átakið er aldrei meira en eigin líkamsþyngd og þau vinna bara með eigin styrk. Þetta er bara jákvætt.“
Guðfinna hefur starfað sem íþróttakennari í bráðum tuttgu ár og segist á þeim tíma hafa upplifað ýmsar breytingar. Almennt séu börn og unglingar – sem og foreldrar – orðnir meðvitaðri um mikilvæg hreyfingar og þess að velja á diskinn hollan mat. „Auðvitað er þetta einstaklingsbundið. Sumir hreyfa sig lítið og eru ekkert sérstaklega að spá í mataræðið. En almennt sé ég breytingar til bóta og í því efni eru áhrifaþættirnir efalaust mjög margir.“
Melkorka Árný Kvaran
Leikgleðin sé allsráðandi
„Við foreldrar erum fyrirmyndirnar og getum haft svo ótrúleg áhrif á hreyfiáhuga barnanna okkar. Það sem er samt lykilatriðið í þessu, að við höfum ánægju af viðfangsefnunum og höfum fjölbreytni að leiðarljósi,“ segir Melkorka Árný Kvaran, eigandi Kerrupúls sf.„Það er nauðsynlegt að finna hvar áhugasviðið liggur og forðast íþróttaiðkun þar sem börn eyða helmingnum af tímanum í að bíða í röðum. Það er enn of mikið af slíku í boði fyrir krakka. Leikgleðin þarf að vera allsráðandi,“ segir Melkorka sem telur börn, einkum í yngri bekkjum grunnskólanna, fá talsverða hreyfingu. Betur megi þó ef duga skuli og verkefni eins og Skólahreysti séu í því efni mikil hvatning sem veki áhuga.
„Átta ára dóttir mín er fjórum sinnum í viku í skipulagðri hreyfingu. Mjög mörg börn upp að tíu til tólf ára aldri eru í einhverri íþrótt utan skóla, gjarnan tvisvar til þrisvar í viku. Það er sjaldnast fyrr en eftir þann aldur sem hreyfingin minnkar hjá þeim krökkum sem ekki finna sig í íþróttum. Það er samt svo margt hægt að gera fyrir krakka til að auka hreyfinguna. Þau geta t.d. gengið úr og í skóla og tómstundir, sama hvernig viðrar,“ segir Melkorka sem undirstrikar mikilvægi þess að sýna skynmsemi í matarræði.
„Ég þarf minn skammt af súrefni og líkamsrækt daglega, rétt eins og sumir þurfa sinn kaffibolla. Er algjört matargat og finnst nánast allur matur góður, en var skelfilega matvönd sem barn. Ég er týpan sem hlakkar til hverrar máltíðar. Finnst svokallað ofurfæði henta mér vel, þar sem ferskur, hollur og litríkur matur er í forgrunni.“
Rúnar Kristinsson
Keppnin laði besta fram
„Skólahreysti er góð hvatning fyrir krakka enda er öllum mikilvægt að hreyfa sig með einhverju móti. Það munar um allt. Margir finna sig til dæmis í boltagreinum eða almennri hreyfingu, til dæmis gönguferðum, sundi eða öðru slíku. Og þetta gildir auðvitað um alla aldurshópa –hreyfing er einfaldlega nauðsynlegur hluti af lífinu,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR í knattspyrnu.
Rúnar segir Skólahreysti gott framtak og áhrifin séu jákvæð. „Þegar skólarnir velja nemendur sem fulltrúa sína í keppnislið má slíkt þó ekki verða til þess að aðrir missi móðinn. Í skólastarfi má keppnin ekki yfirtaka gleði leiksins, heldur á hún fyrst og fremst að laða það besta fram í fólki. Vonandi finna allir einhvern góðan milliveg á þessu,“ segir Rúnar, sem var byrjaður á fullu í íþróttum sex ára.
„Ég var í skóla í Breiðholtinu og við félagarnir vorum alltaf í íþróttum. Enginn mátti vera inni í frímínútunum og því lá beinast við að fara út í fótbolta og eyða smáorku. Oftast fórum við í fótbolta og væri körfubolti á dagskrá létum við fótboltaknöttinn bara duga enda áttum við yfirleitt slíkan tiltækan. Svo var auðvitað oft farið í stórfiskaleik eða brennó – allt í alveg frábærum félagsskap,“ segir Rúnar, sem um fermingu byrjaði að æfa fótbolta með KR sem hefur verið hans heimavöllur síðan.
„Sonur minn í fótboltanum þar sem hann æfir af kappi – bæði með félaginu sínu og utan æfingatíma æfir hann aukalega – og dæturnar tvær hafa verið í fimleikum. Ég finn að þetta hefur gert krökkunum afskaplega gott og er þeim mikils virði.“