Margir tala af aðdáun og jafnvel rómantískri velvild um mótmælin sem urðu á Austurvelli og á nokkrum öðrum sérvöldum stöðum í kjölfar falls íslenska bankakerfisins. Oft er því haldið á lofti með hrifningu að búsáhöldin hafi barið réttkjörna ríkisstjórn frá völdum. Sjálft Ríkisútvarpið barði sínar bumbur fyrir þessari sætu blómabyltingu, með lítt dulinni aðdáun og hvatningu. Ríkisútvarpið sendi út gagnrýnislaust ræður og hróp fólks, sem fór með sakargiftir og óhróður um nafngreinda einstaklinga. Fjölskyldur heyrðu í þessum útsendingum þegar heimilisföng embættismanna voru gefin upp til þess að hægt væri að sækja að þeim þar.
Þessi stofnun, sem enn er rekin með þvingaðri innheimtu rekstrarfjár, með sérstakri vísun til öryggis landsmanna, flutti áfram beiðni „skipuleggjenda“ um að fólk kæmi með viðeigandi dót að heiman til mótmælanna. Voru pönnur nefndar sérstaklega, sem eru helstu þungavopn á venjulegu heimili, að skotvopnum frátöldum, sem aftur á móti finnast ekki á meirihluta þeirra. Ekki þarf að orða hvernig mökum og börnum lögreglumanna hefur liðið sem heyrðu slíkar hvatningar í sjálfu Ríkisútvarpinu.
Miðlar 365 voru á fleygiferð við að fleyta áróðri eiganda síns um að hrun banka sem sá sami og fyrirtæki hans skulduðu þúsund milljarða væri opinberum yfirvöldum að kenna, en ekki þeim sem fóru ránshendi um bankana, fölsuðu hlutafjárvirði þeirra og eiginfjárstöðu. Þessir fjölmiðlar ofurskuldarans lofsungu óeirðirnar beint og óbeint, með þeirri undantekningu þó, að eiga ekki orð af hneykslan þegar ólætin trufluðu um stund þeirra eigin útsendingar.
Hörður Torfason hefur fyrir nokkru sagt opinberlega að mótmælaaðgerðunum hafi verið stjórnað með skipulegri hætti en fólk hefði áttað sig á. Hann hefur ekki gert nánari grein fyrir þessum orðum sínum. Nú dregur Hörður hins vegar allt í einu í land í tilefni af því að opinberlega hefur verið rætt um ógeðfelldan þátt tiltekinna þingmanna og meinta tilburði þeirra til að beina árásarliðinu að þeim svæðum við þinghúsið þar sem varnirnar voru veikastar hverju sinni. Segist Hörður nú hafa einn séð um alla skipulagningu mótmælanna, en gefur ekki enn neina haldbæra skýringu á margvíslegri fjármögnun, sem var ekki hægt að komast hjá. Vandamálið við þessar umræður allar er auðvitað það, að öllu er hrært saman í einn graut.
Fólkið í landinu hafði allan rétt á og ríkt tilefni til að vera þungt í skapi, illa svikið og reitt og láta það koma fram í almennum mótmælum gagnvart þeim sem með völdin fóru, a.m.k. að formi til, þegar þarna var komið. Og vafalítið var stærsti hluti þess hóps kominn í þessum eðlilegu og lögmætu erindum.
En harðsnúinn og ofsafenginn hópur, bersýnilega vel skipulagður, og oftast óþekkjanlegur, þar sem hann faldi andlit sín í lambhúshettum og skíðagrímum, gerði fjöldanum, sem að baki stóð, illt til. Og stjórnmálamenn í sókn eftir völdum, sem þá hafði lengi hungrað í, voru ekki langt undan. Og til þeirra sást svo sannarlega. Þeir virtust horfa með velþóknun á þegar ráðist var með afli á fámennt en hugað lögregluliðið, sem setti líf sitt og heilsu til að verja þinghúsið og fleiri opinber mannvirki. Og engin ástæða er til að efast um þátt þessara þingmanna til að leitast við að gera verk lögreglunnar, sem var ofurmannlegt, nánast óviðráðanlegt.
Þegar hópur lögreglumanna fékk um sinn örlitla hvíld inni í hliðarbyggingum þinghúsanna, eftir óbærileg átök við barsmíðaberserki, kröfðust tilteknir þingmenn þess með þjósti að þeim væri vísað á dyr. Það er svo sem ekki skrítið þótt það sama fólk vilji ekki að sú framganga þess sé rifjuð upp. En það er ástæðulaust að láta þeim þöggunina eftir.