Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Þetta er viðkvæmt mál, sem þurfti að afgreiða mjög hratt til að byrja með á föstudaginn.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Þetta er viðkvæmt mál, sem þurfti að afgreiða mjög hratt til að byrja með á föstudaginn. Við ætlum hinsvegar að fara vel yfir allar hliðar þess, gefum okkur þann tíma sem til þarf og reynum að taka eins vandaða ákvörðun og hægt er,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, við Morgunblaðið í gær.

Hann var þá spurður um frekari eftirmál þess að dómararnir Karl Friðriksson og Ágúst Jensson voru á föstudag settir af öllum leikjum á vegum KKÍ um óákveðinn tíma.

Skilað vísvitandi of seint

Tildrögum þess var lýst í yfirlýsingu sem KKÍ birti á vef sínum á föstudag. Eftir leik Fjölnis og KKÍ í undanúrslitum bikarkeppni unglingaflokks karla skrifaði dómarinn kæru til aga- og úrskurðarnefndar KKÍ vegna leikmanns Fjölnis sem sparkaði í leikmann KFÍ. Í yfirlýsingunni segir:

„Karl Friðriksson dómari fékk símtal eftir umræddan leik frá Ágústi Jenssyni, dómara, sem dæmir fyrir Fjölni. Í kjölfar þess tók Karl þá undarlegu ákvörðun að skila inn kærunni vísvitandi of seint. Þar með myndi aga- og úrskurðarnefnd ekki getað tekið hana fyrir á réttum tíma svo að umræddur leikmaður yrði mögulega ekki í leikbanni í úrslitaleiknum sem fram fer á morgun laugardag.

Í ljósi aðstæðna tók aga- og úrskurðarnefnd málið fyrir í dag á aukafundi nefndarinnar og úrskurðaði í málinu. Stjórn og dómaranefnd KKÍ líta þetta mál mjög alvarlegum augum og hafa þeir Karl og Ágúst verið teknir af niðurröðun dómaranefndar tímabundið.“

Þess má geta að viðkomandi leikmaður var úrskurðaður í þriggja leikja bann á aukafundinum á föstudag og lék því ekki úrslitaleikinn með Fjölni daginn eftir.

Karl og Ágúst hafa báðir dæmt leiki í efstu deild karla. Karl hefur talsverða reynslu en Ágúst er talinn með efnilegri dómurum.