Kjartan Örn Kjartansson
Kjartan Örn Kjartansson
Eftir Kjartan Örn Kjartansson: "Ég hef lesið í fjölmiðlunum ávirðingar þær, sem á Gunnar eru bornar, en ætla ekki að fjalla um þær sem slíkar hér enda fáránlegar."

Ég get ekki orða bundist vegna óvæginnar aðfarar að vini mínum Gunnar Þorvaldi Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Ég hef lesið í fjölmiðlunum ávirðingar þær, sem á Gunnar eru bornar, en ætla ekki að fjalla um þær sem slíkar hér enda fáránlegar. Ég vil hins vegar veita vitnisburð um góðan dreng, mann sem er einkar annt um virðingu sína og orðspor og má ekki vamm sitt vita. Auðvitað er Gunnar sinn eigin besti verjandi og ég hvet alla sem geta til að lesa viðtal við hann í opnu helgarblaðs DV 24.-26. feb. Þar kemur fram hinn staðfasti heiðarlegi maður, sem vegna hæfileika sinna og dugnaðar hefur rifið FME áfram síðan hann tók við því fyrir aðeins um þremur árum síðan. Eitthvað hefur hann komið of nærri kaununum hjá einhverjum, sem nota nú málaliða til þess að reyna að hindra framgang réttvísinnar og/eða hefna sín með því að reyna að fella hann. Það er mergurinn málsins. Reykur án elds og ófræging hinna óvönduðu, sem komu landinu í þær ógöngur, sem það er í.

Ég hef þekkt Gunnar lengi, bæði sem félaga og sem viðskiptamaður Landsbanka Íslands. Alla tíð, bæði í leik og í starfi, hefur Gunnar sýnt að hann er afar mikilhæfur, aðgætinn og grandvar, lítillátur og óvenju siðprúður og þekki ég engan mann lengur, sem ég treysti betur en Gunnari til allra hluta. Þannig er maðurinn, sem á að höggva.

Nú ríður á að hindra áhlaupið. Ég hvet alla þá, sem annt er um að áfram verði haldið að hreinsa til í íslensku samfélagi og jafnframt verja saklausan mann, að standa upp, að skrifa í blöðin, tala í útvarp og reyna hvað sem hver getur til að hafa áhrif. Það er hinn venjulegi maður, kjósandinn, sem er í raun sterkasta aflið, en hann verður að beita sér óhræddur.

Höfundur er fyrrv. forstjóri.

Höf.: Kjartan Örn Kjartansson