Brautskráning Hópurinn útskrifaður í Bústaðakirkju síðastliðinn föstudag.
Brautskráning Hópurinn útskrifaður í Bústaðakirkju síðastliðinn föstudag.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Aðeins þrír lögreglumenn sem útskrifuðust úr Lögregluskóla ríkisins fyrir helgi hafa fengið vilyrði fyrir störfum og þá einungis fram á haust.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Aðeins þrír lögreglumenn sem útskrifuðust úr Lögregluskóla ríkisins fyrir helgi hafa fengið vilyrði fyrir störfum og þá einungis fram á haust. Óljóst er um ráðningar vegna sumarafleysinga hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en einhverjir nemanna gera sér vonir um að komast þar að.

„Það er ekki of bjart útlitið. Ekkert þeirra er að fara í skipaða stöðu. Örfá hafa fengið tímabundna ráðningu fram á haust og önnur gera sér vonir um sumarafleysingar. Þau kvarta yfir því að fá ekki afdráttarlaus svör,“ segir Árni Sigmundsson, deildarstjóri grunnnáms í Lögregluskólanum.

Átján lögreglumenn útskrifuðust úr skólanum sl. föstudag. Nemandi sem blaðamaður ræddi við segir að flestir nemendanna hafi stefnt að vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Þau sem ekki voru þar fyrir fluttu til borgarinnar vegna námsins. Þeim hafi verið tilkynnt nokkrum vikum fyrir útskrift að vegna niðurskurðar yrði líklega ekkert ráðið í nýjar stöður eða þær stöður sem losna í ár. Seinna hafi komið fram að hugsanlega yrði ráðið í einhver sumarstörf en það skýrðist ekki fyrr en eftir tvo mánuði.

Tveir nýútskrifuðu lögreglumannanna fengu tímabundnar ráðningar á Suðurnesjum og einn á Sauðárkróki. Nemandinn taldi að fæstir væru farnir að huga að annarri vinnu, heldur vonuðu að eitthvað breyttist.

Aðeins tveir lögreglumenn eru skráðir sem atvinnuleitendur hjá Vinnumálastofnun. Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, segir þó vitað um mun fleiri menn með þessa menntun sem væru þá í annarri vinnu. „Þetta er sérhæft nám og allir eru sammála um að það vantar fleira fólk í lögregluna. Það er miður ef þetta nýútskrifaða fólk missir tengslin við lögregluna og finnur sér annan farveg,“ segir Steinar.

NÝR HÓPUR HEFUR NÁM

Voru aldrei nógu margir

Átján nemendur sem hófu nám við Lögregluskólann fyrir ári brautskráðust sl. föstudag. Enginn nemandi útskrifaðist á síðasta ári en nú hefur nýr 20 manna hópur hafið nám. Arnar Guðmundsson skólastjóri vekur athygli á því að fyrir hrun hafi skólinn aldrei náð að útskrifa nógu marga nemendur. Nú þurfi embættin að skera niður og viðurkennir Arnar að ekki þýði að taka nemendur í nám ef ekki sé von til þess að þeir fái störf.