Steinunn Haraldsdóttir var fædd 3. janúar 1923 á Þorvaldsstöðum, Skeggjastaðahreppi, Norður-Múlasýslu. Hún lést á Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 16. febrúar 2012.

Foreldrar hennar voru Haraldur Guðmundsson, bóndi og kennari á Þorvaldsstöðum, fæddur 9. okt. 1888, á Öngulsstöðum í Eyjafirði, en ólst upp í Skagafirði o.v., d. 1. júni 1959 á Þorvaldsstöðum. Þórunn Björg Þórarinsdóttir húsfreyja og ljósmóðir á Þorvaldsstöðum, fædd þar 18. des. 1891 og d. þar 3. sept. 1973. Önnur börn þeirra Ingveldur, f. 8. des. 1917, bústýra á Þorvaldsstöðum hjá bræðrum sínum, býr nú á Bakkafirði. Unnur, f. 17. mars 1919, d. 25. maí 1941. Þórdís, f. 26. júní 1920, d. 2. ágúst 2008, húsfreyja Patreksfirði. Þórarinn, f. 27. nóv. 1921, bóndi og hreppstjóri á Þorvaldsstöðum. Sigrún, f. 19. feb. 1924, húsfreyja í Reykjavík. Ragnar, f. 13. maí 1926, sjómaður og búfræðingur í Reykjavík. Hálfdan, kennari og skólastjóri í Norðfjarðarhreppi. Auðunn, f. 8. okt. 1928, bóndi á Þorvaldsstöðum, býr nú á Bakkafirði. Arnór. f. 10. des 1929, verkamaður á Akureyri. Guðríður, f. 24 febr. 1931, húsfreyja og sjúkraliði Reykjavík. Haraldur, f. 3. júní 1932, húsgagnasmiður og húsgagnabólstrari í Hafnarfirði. Þórunn, f. 1. maí 1934, húsfreyja í Hafnarfirði. Ragnhildur, f. 22. júní 1939, húsfreyja og sjúkraliði Reykjavík. Steinunn átti einnig hálfsystur, Kristínu Haraldsdóttur, f. 16. júlí 1920 í Steintúni, Skeggjastaðahreppi N-Múl., dáin, bjó síðast á Vopnafirði.

Steinunn ólst upp á Þorvaldsstöðum, vann þar við almenn sveitastörf og þótti meðal annars góður sláttumaður. Steinunn gekk í Húsmæðraskólann á Hallormsstað og fór svo í Húsmæðrakennaraskóla Reykjavíkur. Gerðist síðar kennari við Húsmæðraskólann á Hallormsstað 1950-1952. Ráðskona við Sjúkrahúsið á Patreksfirði 1952- 1956. Kaffikona í Laugarnesskóla í Rvík. Seinna aðstoðarmatráðskona í eldhúsi Landspítalans við Hringbraut. Steinunn var ógift og barnlaus.

Útför Steinunnar fer fram frá Langholtskirkju 28. febrúar 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Svo lengi sem við munum eftir okkur hefur Steinunn verið hluti af lífi okkar. Hún var ráðskona hjá Þórði afa í Skipasundinu þar sem móðir okkar bjó þegar við bræðurnir vorum að stíga okkar fyrstu skref. Þar leit hún eftir okkur bræðrum á meðan afi og mamma voru að vinna og eigum við góðar minningar frá þeim tíma. Steinunn var einstaklega úrræðagóð og beitti oft mikilli hugkvæmni við lausn mála. Sem dæmi um þetta var að annar okkar hafði ótrúlega mikinn áhuga á að stinga öllu mögulegu inn í rafmagnsinnstungur. Leysti hún málið með að setja upp ótengda innstungu á vegg sem hamast mátti í að vild.

Seinna þegar við fluttumst austur fyrir fjall og hún í Njörvasundið vissum við alltaf hvert af öðru og misstum aldrei þráðinn. Við heimsóttum hana oft og gistum jafnvel hjá henni þegar við vorum á ferðinni í Reykjavík.

Þegar við fullorðnuðumst héldum við alltaf sambandi og síðar tókum við meðal annars upp þann sið til fjölda ára að heimsækja hana alltaf seint á aðfangadagskvöld og lagðist sá siður ekki af fyrr við vorum báðir komnir með börn og við tóku hefðbundin jólaboð.

Steinunn var höfðingi heim að sækja og snaraði fram veisluborði á örfáum mínútum. Í heimsóknum hjá henni var margt skrafað og aldrei komið að tómum kofunum, enda Steinunn mjög vel lesin og fylgdist vel með öllu. Skipti þá engu hvort um væri að ræða uppruna lífsins, steinöldina, upphaf siðmenningar eða nýjustu tækni og vísindi. Á þessu síðastnefnda kom hún okkur kannski mest á óvart. Hún var alltaf með þeim fyrstu til að kaupa nýjustu græjurnar hvort sem um var að ræða vídeó, litasjónvarp, hljómflutningstæki eða stafrænan örbylgjuofn. Það sem meira var hún notaði tækin sér til hagsbóta, gömlu eldvélahellurnar fengu til dæmis frí langtímum saman eftir að örbylgjuofninn kom til sögunnar.

Annars var helsta ástríða Steinunnar garðyrkja og ræktun, þá sérstaklega ræktun matjurta og fjölærra blóma. Í garðinum hjá henni voru mörg hundruð tegundir af hinum margvíslegustu plöntum. Oft þegar við komum í heimsókn var hún að grúska í garðyrkjuritum, flokka fræ eða vökva.

Á seinni árum kom svo til óslökkvandi áhugi á köttum og áttu Guðbrandur og síðar Lísa og Lukka stóran sess í lífi hennar.

Komið er að leiðarlokum. Við bræðurnir og fjölskyldur okkar þökkum þér, Steinunn, fyrir einstaka væntumþykju og tryggð. Góð kona er gengin.

Þórður, Stefán og fjölskyldur.

Það var mikið lán fyrir mig þegar Steinunn kom til okkar fóstra míns í Skipasundið. Betri manneskju var ekki hægt að fá til að annast syni mína á meðan ég var að vinna. Hún vildi allt fyrir þá gera, sem dæmi var Þórður orðinn þriggja ára þegar hún sótti hann enn í kerru á gæsluvöllinn. Hafði hún með sér heitt kakó og brauð handa honum svo hann yrði ekki of þreyttur eða svangur. Stefán fór hún með í ljós svo ég þyrfti ekki að taka frí frá vinnu. Þetta eru bara tvö lítil dæmi af mörgum um það sem hún gerði fyrir mig og þá, á meðan hún dvaldi hjá okkur.

Steinunn flutti síðan í Njörvasund og við austur fyrir fjall, en sambandið hélst og kom það fyrir að við gistum hjá henni ef við þurftum að dvelja yfir nótt í Reykjavík.

Steinunn var mjög gestrisin og snögg að töfra fram hlaðborð og helst þurfti að smakka á öllu. Hún kom einnig stundum austur til okkar og þá aldrei tómhent. Oftast kom hún með kleinur sem hún hafði steikt og voru þær vel þegnar. Fylgdu oft með sokkar og vettlingar sem komu sér vel.

Ekki má gleyma kisunum sem Steinunn eignaðist eftir að hún að flutti inn í Njörvasund, annan eins kattavin hef ég ekki þekkt, enda dekraði hún við þá af ástúð.

Steinunn sagði mér fyrir mörgum árum að hún hefði farið á miðilsfund og þar hefði mamma mín, sem lést löngu áður en Steinunn kom til sögunnar, komið til sín og þakkað sér fyrir og sagt að hún og Þórður fóstri minn þyrftu að taka á móti henni með kaffisopa þegar þar að kæmi. Svo hún hefur fylgst með og verið þakklát fyrir hvað Steinunn reyndist okkur vel. Það kæmi mér ekki á óvart að kisurnar hennar Steinunnar hefðu verið í móttökunefndinni ásamt vinum og vandamönnum í fallegri blómabrekku því Steinunn var mikil blómakona.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Góða ferð, Steinunn mín, takk fyrir mig og mína.

Vigdís (Vigga).

Látin er kær skólasystir okkar sem brottskráðumst úr Húsmæðrakennaraskóla Íslands vorið 1950, Steinunn Haraldsdóttir. Hún kom frá norðausturhorni landsins, fædd og uppalin á Þorvaldsstöðum á Langanesströnd. Steinunn var mjög róleg í fasi og hógvær í framkomu, en undir bjó glaðleg og hæfileikarík kona. Hún leyndi því á sér og reyndist okkur góð og trygg skólasystir er á reyndi.

Eftir skólavistina hefur hún lengst af stundað matreiðslustörf á sjúkrahúsum bæði á Patreksfirði og á Landspítalanum. Ekki er að efa að hún lagði sig þar fram um að vinna öll sín störf vel. Hún var gædd mörgum góðum eiginleikum, og samviskusemi hennar og góðvild komu fram í öllu hennar fasi.

Hún hefur lengi fengist við ýmis tómstundastörf, svo sem garðrækt eða gróðurrækt ýmiss konar, og hún lætur einnig eftir sig margvíslegar myndskreytingar, bæði frumlegar og fallegar, unnar með hennar sérstöku aðferðum.

Steinunn átti við talsverðan heilsubrest að stríða á síðari árum, en mætti því öllu með miklu æðruleysi.

Hún var mjög trygg og traust skólasystir og hefur alltaf viljað taka þátt í samverustundum þeim sem við höfum efnt til á síðari árum, þegar við höfum notið þess að hittast og rifja upp gamlar stundir og glaðar minningar. Við eigum því bara góðar minningar um hana, og þökkum að leiðarlokum allar góðu samverustundirnar. Við sendum systkinum hennar og öðrum vandamönnum innilegar samúðarkveðjur og biðjum henni allrar blessunar.

Sigríður Kristjánsdóttir.