Lykilmaður Craig Schoen hefur verið í stóru hlutverki hjá Ísfirðingum í vetur en hann hefur skorað 17,2 stig og átt 7,4 stoðsendingar að meðaltali í leikjum KFÍ. Hann á flestar stoðsendingar allra í 1. deildinni.
Lykilmaður Craig Schoen hefur verið í stóru hlutverki hjá Ísfirðingum í vetur en hann hefur skorað 17,2 stig og átt 7,4 stoðsendingar að meðaltali í leikjum KFÍ. Hann á flestar stoðsendingar allra í 1. deildinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Guðmundur Hilmarsson gummi@mbl.is Ísfirðingar spila í deild þeirra bestu á ný í körfubolta karla á næstu leiktíð en lið KFÍ tryggði sér á dögunum sæti í Iceland Express-deildinni. Liðið hefur haft umtalsverða yfirburði í 1.

Körfubolti

Guðmundur Hilmarsson

gummi@mbl.is

Ísfirðingar spila í deild þeirra bestu á ný í körfubolta karla á næstu leiktíð en lið KFÍ tryggði sér á dögunum sæti í Iceland Express-deildinni. Liðið hefur haft umtalsverða yfirburði í 1. deildinni í vetur og hefur þegar tryggt sér sigur í deildinni, unnið 16 af 17 leikjum sínum í vetur og fær bikarinn afhentan á heimavelli sínum 9. mars en þá tekur KFÍ á móti Skallagrími í lokaumferðinni.

Pétur Már Sigurðsson er þjálfari Ísafjarðarliðsins en hann gerði tveggja ára samning við liðið síðastliðið sumar og undir hans stjórn hefur KFÍ-liðið staðið sig virkilega vel. Það komst í undanúrslit í bikarkeppninni, þar sem liðið tapaði fyrir nýkrýndum bikarmeisturum Keflvíkinga, og er með 10 stiga forskot á næsta lið í deildinni en KFÍ féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Við settum okkur það takmark að vinna deildina og komast aftur upp í úrvalsdeildina. Það tókst og við erum að vonum mjög ánægðir og með tímabilið í heildina. Við lentum í öðru sæti í okkar riðli í Lengjubikarnum og fórum svo alla leið í undanúrslit í bikarkeppninni,“ sagði Pétur Már Sigurðsson, þjálfari KFÍ, við Morgunblaðið. Hann er öllum hnútum kunnugur hjá KFÍ en hann lék með liðinu í sex ár, síðast árið 2005.

Margar hendur vinna gott starf

Hverju þakkar þú þennan góða árangur á tímabilinu?

„Fyrst og fremst eiga leikmenn mínir skilið mjög mikið hrós. Þeir hafa lagt á sig gríðarlega mikla vinnu. Þegar ég tók að mér þjálfun liðsins síðastliðið sumar gerði ég leikmönnum grein fyrir því að þeir yrðu að æfa mjög mikið og það gerðu þeir svo sannarlega. Stjórnin hefur líka unnið geysilega gott starf og á bakvið hana eru góðir menn. Það er margt gott fólk sem kemur að þessu og allur þessi hópur hefur verið mjög samhentur. Margar hendur vinna gott verk,“ sagði Pétur Már.

Útlendingarnir góð fyrirmynd

Ísfirðingar hafa í sínum röðum þrjá útlendinga, Bandaríkjamennina Christopher Miller-Williams og Craig Schoen, og Bosníumanninn Edin Suljic og hafa þeir reynst liðinu ákaflega vel að sögn Péturs.

„Bandaríkjamennirnir eru atvinnumenn og fá borgað fyrir að spila með okkur en Bosníumaðurinn vinnur í fiski hér fyrir vestan. Bandaríkjamennirnir eru líka að vinna með spilamennskunni enda lagði ég ríka áherslu að þeir gerðu það í stað þess að hanga heima allan daginn. Útlendingarnir hafa reynst okkur mjög vel. Þeir eru duglegir, mjög dagsfarsprúðir og ná mjög vel til okkar ungu leikmanna. Þeir eru lausir við allan hroka og hafa bara fallið frábærlega inn í þennan hóp. Þeir eru góð fyrirmynd fyrir ungu strákana og við munum reyna að halda þeim hjá okkur. Stefnan er að reyna að halda nær öllum leikmönnum og fá einn til tvo leikmenn til viðbótar fyrir baráttuna í úrvalsdeildinni á næsta tímabili,“ sagði Pétur Már.

Förum hægt upp metorðastigann

Það hefur verið töluverð körfuboltahefð á Ísafirði og áhuginn á íþróttinni fyrir vestan hefur verið til staðar. KFÍ-liðið féll úr úrvalsdeildinni í fyrra en nú stefna Ísfirðingar á að festa sig í sessi meðal þeirra bestu.

„Við erum að byggja upp lið og vitum að það tekur tíma. Við förum hægt upp metorðastigann. Það er búið að ganga vel í vetur en við vitum að það verður erfitt á næsta tímabili. Menn þurfa bara að gíra sig upp í það og leggja aðeins meiri vinnu á sig. Það er efniviður til staðar hjá okkur en stefnan hjá okkur er að reyna að fjölga iðkendum. Við þurfum að halda vel utan um yngri flokka starfið,“ sagði Pétur en auk þess að þjálfa meistaraflokk karla þjálfar hann meistaraflokk kvenna og yngri flokka félagsins.

Eigum heima í úrvalsdeildinni

Pétur segir að mætingin á leikina í „Ísjakanum“ hafi verið í minna lagi til að byrja með en áhugi fólks á liðinu hafi aukist þegar liðið hafi á veturinn.

„Ég trúi ekki öðru en að við fyllum húsið í síðasta leiknum sem verður á móti Skallagrími. Það er mikilvægt að undirbúningurinn fyrir næsta tímabil hefjist með þessum leik og fólk viti hvað sé í vændum. Það verður hátíð í lokaleiknum og ég hvet alla til að koma og fagna með okkur. Það er mikill hugur í okkur og það er mikil tilhlökkun fyrir næsta tímabil. Það eru margir ungir sprækir strákar í liðinu sem fá eldskírn í úrvalsdeildinni næsta vetur. Við sáum það í vetur að við eigum heima í úrvalsdeildinni. Við höfum unnið mörg af úrvalsdeildarliðunum í vetur og ef við getum styrkt liðið með einum til tveimur mönnum þá verðum við í fínum málum. Það verður æft stíft í vor og sumar,“ sagði Pétur Már.