Anna María Baldursdóttir, 17 ára stúlka úr Stjörnunni í Garðabæ, hefur verið kölluð inn í A-landslið kvenna í knattspyrnu fyrir Algarve-bikarinn sem hefst í Portúgal á morgun. Anna María kemur í hópinn fyrir Sif Atladóttur, leikmann Kristianstad í Svíþjóð, sem þurfti að draga sig út úr landsliðshópnum vegna meiðsla.
Þrátt fyrir ungan aldur lék Anna María talsvert hlutverk í Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar síðasta sumar og á að baki 27 leiki með því í efstu deild. Þá hefur hún spilað 16 leiki með yngri landsliðum Íslands og var í U17 ára liðinu sem komst alla leið í undanúrslit Evrópukeppninnar á síðasta ári. Hún átti einmitt að fara með U19 ára landsliðinu til La Manga á Spáni í næsta mánuði. Vegna Algarve-ferðarinnar fer Anna ekki í þá ferð og Sandra María Jessen úr Þór var valin í U19 ára liðið í hennar stað.
Ísland mætir Þýskalandi í fyrsta leiknum á Algarve-mótinu á morgun. Á föstudaginn leikur Ísland á móti Svíþjóð og gegn Kína næstkomandi mánudag. Á miðvikudaginn í næstu viku verður síðan spilað um endanleg sæti á mótinu en Ísland fékk silfurverðlaunin í fyrra eftir tap fyrir Bandaríkjunum í úrslitaleik og sigraði bæði Svíþjóð og Danmörku í fyrsta skipti. vs@mbl.is