Sigrún Rósa Björnsdóttir
sigrunrosa@mbl.is
„Mig minnir að lögmaður sakborningsins hafi fullyrt að þetta væri fordæmisgefandi á þann hátt að þeir sem aðstoðuðu við gerð framtala bæru ábyrgð. Ég var ekki sammála því á sínum tíma og mér fannst dómurinn ekki vera að segja það. Meginatriðið í þessum dómi finnst mér vera að ákæruvaldið gat ekki sannað það að skattframtölin hafi verið röng,“ segir Guðmundur Kjartansson, áhættu og gæðastjóri hjá endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte um nýlegan dóm Hæstaréttar er varðar skatta.
Gögnin frá umbjóðendum
Þegar dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu var kveðinn upp í fyrrahaust voru tveir forsvarsmenn félaga sýknaðir af þeim hluta ákærunnar. Þeir báru því meðal annars við að hafa leitað sér aðstoðar við framtalsgerð hjá fagaðila, Deloitte.Þá gagnrýndi Deloitte að ekki hefði verið leitað viðbragða hjá endurskoðunarfyrirtækinu eftir að sakborningurinn færði ábyrgðina af skattskilunum, af sjálfum sér og yfir á endurskoðunarfyrirtækið. Deloitte hafi eingöngu aðstoðað við framtalsgerð á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem komu frá fólkinu.
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að skattframtöl, sem samin voru af sérfræðingum hafi verið efnislega röng og var sýkna fólksins um það atriði staðfest.
Segir ábyrgðina skattaðilans
Forsvarsmennirnir voru meðal annars ákærðir fyrir að hafa frestað skattlagningu ríflega 70 milljón króna söluhagnaðar með því að fyrna eign sem ekki taldist fyrnanleg í skilningi tekjuskattslaga. Að mati Guðmundar hefði þessi hluti málsins ekki átt að fara fyrir dóm, heldur hefði borið að leysa það hjá ríkisskattstjóra enda hefðu allar upplýsingar legið fyrir í skattframtölunum. „Ég tek skýrt fram að þarna var um álitamál að ræða, þar sem maðurinn ákvað sjálfur, að fara með þessum hætti í sínum framtölum. Það er skattaðilinn sem ber ábyrgðina,“ segir Guðmundur. Vinna fagaðilans sé byggð á þeim gögnum og upplýsingum sem hann fái frá umbjóðanda sínum.Hæstiréttur staðfesti sök forsvarsmannsins varðandi skil á vörslusköttum. Var hann dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi. Einnig til að greiða 18 milljóna króna sekt eða sitja ella í fangelsi í 150 daga. Sýkna hins forsvarsmannsins var staðfest.