(Sigurður) Guðgeir Ingvarsson fæddist 28. febrúar 1946 á Desjarmýri í Borgarfirði eystra. Hann lést á heimili sínu Mánatröð 8b á Egilsstöðum 14. febrúar 2012.
Foreldrar hans voru hjónin Ingvar Júlíus Ingvarsson, bóndi og oddviti, og Helga Björnsdóttir húsfreyja. Guðgeir ólst upp á Desjarmýri, elstur sjö systkina en þau eru: Ingunn Júlía, bóndi á Viðborðsseli á Mýrum, Hornafirði, Vigfús Ingvar, fyrrverandi sóknarprestur á Egilsstöðum, Guðríður, ljósmóðir í Hafnarfirði, Björn, rafmagnsiðnfræðingur á Egilsstöðum, Guðrún, bókhaldari í Reykjavík, og Soffía, menntaskólakennari og bóndi á Unaósi á Fljótsdalshéraði.
Guðgeir kvæntist Anne Kampp leirlistakonu 17. ágúst 1974. Foreldrar hennar voru hjónin Svend Aage Kampp, lýðháskólakennari og fríkirkjuprestur, síðast í Óðinsvéum, og Elinor Kampp húsfreyja. Börn Guðgeirs og Anne eru: 1) Ingvar Smári, tæknifræðingur í Danmörku, kona hans er Hjördís R. Nielsen og eiga þau dótturina Huldu Elisabeth. 2) Guðný Elísa, deildarstjóri á leikskóla í Reykjavík. 3) Elín Helga, við þroskaþjálfanám í Reykjavík, unnusti hennar er Björn Halldór Björnsson. Þau Guðgeir og Anne skildu.
Guðgeir stundaði nám við Flensborgarskóla og síðan Gagnfræðaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan vorið 1966. Nam ensku við HÍ 1966-67 og við Kennaraskóla Íslands næsta vetur og lauk kennaraprófi vorið 1968. Nam við Den sociale Højskole í Óðinsvéum í Danmörku 1971-74 og lauk þá prófi sem félagsráðgjafi.
Guðgeir var kennari við Barnaskóla Keflavíkur 1968-69 og vann á Skrifstofu ríkisspítalanna 1969-70. Starfaði sem félagsráðgjafi við Sálfræðideild skóla í Reykjavík 1974-79. Félagsmálastjóri á Akranesi 1979-86 og á Egilsstöðum frá 1986-1999. Vann við ráðgjafarstörf í skólum á Akureyri 1999- 2000 og árið eftir sem félagsmálastjóri og kennari á Fáskrúðsfirði og fékkst svo við kennslu í Fellabæ. Guðgeir vann tvö ár sem blaðamaður á Austra. Starfaði síðari árin og til æviloka við Héraðsskjalasafn Austfirðinga, samtals í um hálfan annan áratug.
Guðgeir tók mikinn þátt í ýmsum félagsstörfum og fékkst nokkuð við ritstörf svo sem ljóðagerð.
Útför Guðgeirs fór fram frá Fossvogskapellu í kyrrþey 24. febrúar en minningarathöfn verður í Egilsstaðakirkju í dag, 28. febrúar, kl. 16.
Með fáum orðum vil ég kveðja Guðgeir, eldri bróður minn, sem kvaddi fyrr en búast mátti við þótt heilsu hans hafi farið hrakandi síðustu mánuði. Hugurinn leitar til bernskuslóða á Desjarmýri. Mörg spor áttum við bræður saman um hagana þar ef ekki í tengslum við búskapinn þá að horfa eftir blómum, fuglum og öðrum furðum náttúrunnar. Fyrir kom víst að einhverjir nytsemdarleiðangrar leystust upp í eintóma náttúruskoðun. Ég minnist líka nosturs Guðgeirs við garðrækt en alla ævi hafði hann mikinn áhuga á ræktun blóma og runna. Svo voru það bækurnar. Áhugi hans á bókum dvínaði síst með árunum og þá ekki aðeins á innihaldi þeirra heldur ekki síður gerð og flokkun bóka. Og reglan í bókaskápum hans var aðdáunarverð – allar bækur skráðar og flokkaðar á réttan stað. Samviskusemi og vandvirkni var Guðgeiri eiginleg og að horfa ekki í tíma eða fyrirhöfn ef um var að ræða að ganga sómasamlega frá einhverju. Dýrmætt verður okkur ættfólki hans hvernig hann varðveitti ýmis bréf, skjöl og myndir frá skyldmennum. Hann var sannarlega á réttri hillu þar sem hann vann nú síðari árin á Héraðsskjalasafni Austfirðinga og margir fengu að njóta vandvirkni hans og greiðvikni, fróðleiks og góðra skipulagshæfileika. Guðgeir hóf meðal annars tölvuskráningu á gögnum safnsins. Guðgeir hafði gott vald á íslensku máli og raunar fleiri tungumálum og var vel ritfær. Hann fékkst nokkuð við kveðskap og þá einkum með hefðbundnum háttum. Tónlist og söng hafði hann alltaf yndi af og lék á ýmis hljóðfæri. Best man ég þó eftir honum með harmonikkuna. Guðgeir var frændrækinn og hélt góðu sambandi við fjarlæga ættingja. Hann var aðalhvatamaður að velheppnuðu ættarmóti á Desjarmýri sumarið 2008 og raunar einnig ættarmóti móðurfólks okkar áður og hann tók saman niðjatöl afa og ömmu í báðum tilfellum. Guðgeir var drjúgur liðsmaður í félagsstörfum og gott að reiða sig á hann í þeim efnum og margir munu sakna hans á þeim vettvangi svo sem í Lionsklúbbnum Múla eða hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi. Þegar Guðgeir lét af starfi sem félagsmálastjóri mun hann hafa átt einna lengstan starfsaldur hérlendis í slíku starfi. Fjölskyldu Guðgeirs votta ég samúð mína og bið Guð að styrkja og hugga syrgjendur. Sendi jafnframt kveðju mína og konu minnar, Ástríðar Kristinsdóttur, sem erum bæði stödd erlendis þegar minningarathöfnin fer fram á afmælisdegi bróður míns, sem ég kveð með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir óteljandi ánægjulegar samverustundir.
Vigfús Ingvar Ingvarsson.
Sigríður Ásta og Kristín Inga.