Þátttaka í Skólahreysti hjá okkur hefur verið afar góð undanfarin ár,“ segir Ásdís Lilja Pétursdóttir íþróttakennari við Grunnskóla Grundarfjarðar. Alls sautján nemendur úr unglingadeild skólans hafa í vetur æft vegna Skólahreysti og áhuginn er mikill. Allt eru þetta kraftmiklir, áhugasamir og skemmtilegir krakkar. Skólahreysti er valgrein á unglingastigi í Grundarfirði og er vinsæl meðal krakkanna. Krakkar úr 9. og 10. bekk fara í keppnina sjálfa en einnig hefur krökkum úr 7. og 8. bekk verið boðið að taka þátt í undankeppni skólans. Yngri nemendum hefur svo verið boðið að prófa brautina að undankeppni lokinni.
Starfsdeildin smíðaði tæki
„Þetta vekur áhuga þeirra sem yngri eru og bíða sum spennt þar til röðin kemur að þeim að vera með,“ segir Ásdís Lilja sem stóð frammi fyrir þeim veruleika að nauðsynleg æfingatæki vantaði í kennsluna. Starfsdeild skólans sem samanstóð af fjórum duglegum drengjum, undir stjórn Péturs Guðráðs Péturssonar, fór því á stúfana og leysti málið með því að smíða sambærileg tæki og eru notuð í keppninni, fyrir nánast engan pening.
„Í skólanum voru til borð úr sér gengin en úr góðum efnivið,“ segir Ásdís Lilja. „Starfsdeildin bútaði grindina af borðunum niður og sauð saman og útkoman voru tæki fyrir armbeygjur, hreystigrip, dýfur og upphífingar. Kúlan í hraðabrautinni var svo búin til úr gömlum trollbobbingi, en á hana boruðu þeir gat, þyngdu með sandi og lokuðu aftur.“
Heimsmeistarinn er dómari
„Við reynum að hafa æfingarnar fjölbreyttar og skemmtilegar,“ segir Ásdís Lilja. „Æfingarnar samanstanda af útihlaupum, boot camp tímum, stöðvaþjálfun, leikjum og æfingum í braut. Einu sinni í mánuði höfum við svo verið að lyfta í líkamsræktarstöð bæjarins, en Þórey Jónsdóttir sem á og rekur stöðina hefur leyft okkur að koma þangað án endurgjalds. Hún hefur síðan af og til verið með ketilbjöllutíma fyrir okkur, sem er frábær tilbreyting,“ segir Ásdís.Á næstu dögum verður haldin undankeppni ársins í ár, þar sem þátttakendur í liðið sem fer í aðalkeppni Skólahreysti verða valdir. Kraftlyftingamaðurinn Rúnar Geirmundsson, sem er heimsmeistari í réttstöðulyftu í sínum þyngdarflokki, verður gestadómari.
Metnaðurinn er til staðar
Í aðalkeppninni hefur lið Grundarfjarðar jafnan átt farsæld að fagna. Varð í fyrra í 3. sæti í undankeppninni og í því fjórða 2011.„Okkur hefur tekist að skapa svolítið ævintýri í kringum aðalkeppnina. Höfum farið suður með rútu og klapplið skólans hefur verið líflegur hópur. Á eftir höfum við svo öll farið saman út að borða. Svanur Tryggvason sem er baðvörður í íþróttahúsinu hér í Grundarfirði hefur boðið okkur á pítsuhlaðborð síðustu tvö ár og kunnum við honum bestu þakkir fyrir,“ segir Ásdís hefur kennt íþróttir í Grundarfirði sl. ellefu ár.
sbs@mbl.is