Hreystifólk Hjónin Andrés Guðmundsson og Lára Berglind Helgadóttir standa saman að Skólahreysti. „Það er líka umhugsunarvert hvort krakkar til dæmis í efstu bekkjum grunnskólanna fái þá næringu sem þeim er nauðsynleg,“ segir Andrés.
Hreystifólk Hjónin Andrés Guðmundsson og Lára Berglind Helgadóttir standa saman að Skólahreysti. „Það er líka umhugsunarvert hvort krakkar til dæmis í efstu bekkjum grunnskólanna fái þá næringu sem þeim er nauðsynleg,“ segir Andrés. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skólahreystin skorar hátt. Þúsundir keppenda úr hundruðum skóla. Knáir krakkar og kátir úr skólum víða um landið. Lesa sig upp kaðla og bera steina. Sjónvarpsþættir frá keppninni njóta einstakra vinsælda.

Nærri 3.500 nemendur 9. og 10. bekkjar 130 grunnskóla víðsvegar um land taka þátt í Skólahreysti þetta árið. Undanriðlar keppninnar eru níu og þar keppa skólar einstakra bæjarfélaga og landshluta sín í milli. Undankeppnin er með útsláttarfyrirkomulagi og þegar kemur að úrslitunum sjálfum 26. apríl standa aðeins tólf skólar eftir.

„Áhugi krakkanna á keppninni fer sífellt vaxandi og sama má segja um stjórnendur skólanna. Ég neita ekki að þegar við fórum af stað með Skólahreysti árið 2006 höfum við aðeins fundið fyrir tortryggni íþróttakennara. Nú eru þessi viðhorf allt önnur og gjörbreytt frá því sem var. Skólastjórnendur gera sér orðið grein fyrir því hve miklu skiptir að krakkarnir hreyfi sig og góður árangur í Skólahreysti er jákvæður fyrir skólana. Ávinningurinn er því margvíslegur,“ segir Andrés sem stendur að Skólahreysti ásamt Láru Berglind Helgadóttur eiginkonu sinni.

Krakkarnir sjá tilganginn

Skólarnir sem taka þátt í keppninni koma af öllu landinu. Skólahreystifólk heimsækir jafnan nokkra staði úti á landi en kemst þó ekki jafnvíða og vilji stendur til.

„Það er allt annað að koma á staðinn til krakkanna og upplifa stemninguna á stöðunum. En það er ekki gerlegt fjárhagslega að heyja keppni í öllum undanriðlum úti á landi þó við stefnum að því þegar fram líða stundir,“ segir Andrés sem stóð á sínum tíma fyrir ýmsum kraftakeppnum t.d. í tengslum við Bylgjulestina.

„Á þessum sumarmótum voru krakkarnir mjög áhugasamir og þannig kom hugmyndin að því að vera með svona þrautakeppni sérstaklega á vettvangi grunnskóla. Og viðtökurnar hafa satt að segja orðið miklu betri en ég nokkru sinni vænti. Úr þessu hefur orðið mikið ævintýri. Með keppninni og að skora þar sjá krakkarnir beinlínis tilganginn í því að vera góð í því að sippa og lesa sig upp kaðla. Og þetta heillar, því Tarsanleikurinn býr í okkur öllum.“

Tölvan tekur tíma

Börn og unglingar í dag hafa klárlega minna þrek en áður var – það er börnin sem ekki stunda skipulagðar íþróttir og eru ekki í útileikjum að neinu ráði. Og þau eru alltof mörg.

„Tölvan tekur tíma og freistar margra þegar nær væri að taka þátt í skemmtilegum leik Auðvitað hafa margir þættir hér áhrif. Foreldrar vilja börnunum sínum allt það besta, má þar nefna að keyra þau í skólann en um leið að ofvernda börnin. Hvetja þau ekki nægilega til þess að hreyfa sig, sem er miður. Það er líka umhugsunarvert hvort krakkar til dæmis í efstu bekkjum grunnskólanna fái þá næringu sem þeim er nauðsynleg. Á mörgum heimilum er skyndibitafæðið ráðandi. Í þessu eins og öllu þarf einhvern skynsamlegan milliveg,“ segir Andrés. Sjónvarpsþættir frá undankeppni og úrslitum Skólahreysti hafa notið fádæma vinsælda.

„Ég get ekki verið annað en ánægður með hvernig til hefur tekist. Skv. mælingum Gallup hafa um það bil 25 til 30% þjóðarinnar fylgst með sjónvarpsþáttum frá riðlakeppninni og 40% horft á úrslitaþáttinn eða nærri 98 þúsund manns – sem er talsvert meira en til að mynda lokaleikir Íslandsmótsins í handbolta sem sýndir eru um líkt leyti,“ segir Andrés sem hefur breytt fyrirkomulagi keppninnar í ár lítið eitt. Þannig munu til dæmis fjórir keppa samtímis í upphífingum í stað tveggja áður en með því verður keppnin hraðari og sjónvarpsvænni.

Til þess er leikurinn gerður

Fjórir keppendur mynda lið frá hverjum skóla. Strákur keppir í upphífingum og dýfum og þarf hann að reyna að ná sem flestum endurtekningum. Stelpa keppir í armbeygjum og hreystigreip, hún þarf að taka sem flestar armbeygjur og hanga eins lengi og hún getur í hreystigreipinni. Svo keppir par í hraðaþraut og hleypur í dekkjum, handlangar sig áfram í stiga og á röri, klifrar yfir fimm metra háan vegg, skríður undir net, ber sekki, vippar gúmmístein upp á kassa, sippar, les sig upp kaðal og sest að lokum inn í bíl. Og þetta verður parið að gera á sem allra skemmstum tíma – og til þess er leikurinn líka gerður.

sbs@mbl.is

Ævintýri að okkar fyrirmynd

Skólahreysti til Finnlands. Þarlendir heilluðust. Alls 50 þúsund þátttakendur ytra. Keppt í Turku, Tampere og Oulu. Ég er útrásartröll, segir frumkvöðullinn Andrés Guðmundsson.

Fyrir skemmstu undirritaði Skólahreysti samning við finnsku samtökin Young Finland en til stendur að halda mót í skólahreysti þar ytra með sama lagi og gerist hér á landi. Raunar var forsmekkurinn að þessu tekinn á síðasta ári með nokkurs konar tilraunamóti en nú verður haldið áfram og meira lagt undir. Til stendur að halda keppni í borgunum Turku, Tampere og Oulu – sem eru hver í sínum landshluta – en lokakeppnin sjálf verður í höfuðborginni Helsinki í júníbyrjun.

Höfum gert rétt

„Þetta er afar áhugavert verkefni og umfangsmikið. Í raun er þetta góð staðfesting á því að við höfum verið að gera rétt. Ætli ég geti ekki með þessu sagt mig hreinlega vera orðinn útrásartröll,“ segir Andrés Guðmundsson, framkvæmdastjóri Skólahreysti.

Samtökin Young Finland starfa að því markmiði að auka hreyfingu ungmenna frá því þau byrja í leikskóla fram að tvítugu. Að samtökunum standa flest sérsambönd í Finnlandi og öll þau strærstu auk þess sem leikskólakennarar, grunnskólakennarar, íþróttafélög og 300 þúsund fjölskyldur eiga aðild. Um 3.500 grunnskólar vinna með samtökunum þar sem stuðlað er að almennri hreyfingu allra nemenda.

„Finnsku samtökin höfðu lengi leitað eftir hugmyndum og verkefnum um óhefðbundnar íþróttir sem hægt væri að nýta innan skóla til vekja áhuga ungmenna óháð einstökum íþróttagreinum. Horft var til allra landa á Norðurlöndum og eftir kynningarfund á vegum menntamálaráðuneytisins þar sem finnskur fulltrúi var meðal gesta kviknaði áhugi á að skoða Skólahreysti nánar,“ segir Andrés.

Tveir fulltrúar samtakanna komu til landsins í október á síðasta ári til að kynna sér starfsemi Skólahreysti og nú hefur verið tekin ákvörðun um formlegt samstarf. „Það sem Finnunum þótti áhugavert var hve Skólahreysti hafði náð að fanga athygli krakkanna og íslenska samfélagsins almennt. Þeim fannst hraði og snerpa keppninnar heillandi og einnig hversu sjónvarpsvænn atburður Skólahreysti hefur þótt – en þegar best lætur hefur um það bil þriðjungur Íslendinga fylgst með lokakeppninni á RÚV. Það er líklega algjört met. Tilraunakeppnin í fyrra kom líka alveg virkilega vel út og þar sýndu krakkarnir úr sigurliði Holtaskóla í Keflavík alveg frábæra takta, voru harðdugleg og náðu góðum árangi,“ segir Andrés.

Keppnisbrautir frá Íslandi

Skólahreysti verður hluti af íþróttaviðburði Young Finland sem kallast Taisto/SchoolPower og fer fram í byrjun maí á þessu ári. Gert er ráð fyrir að þátttakendur í Skólahreysti í Finnlandi verði um 50 þúsund núna fyrsta árið.

„Þetta hefur kallað á talsverða vinnu að undanförnu. Finnarnir leggja upp í þetta ævintýri að okkar fyrirmynd. Flest vantar og að undanförnu hef ég unnið að smíði keppnisbrautirnar sem þarf að vera til staðar. Fer svo út nokkrar ferðir til Finnlands í vor til að vinna með þeim og sjá hvernig þetta rúllar – og verð auðvitað á staðnum þegar lokakeppnin verður haldin í byrjun júní. Mér finnst þetta allt lofa mjög góðu og vonandi vindur þetta eitthvað upp á sig enn frekar í fyllingu tímans,“ segir Andrés.

sbs@mbl.is