Unnur Scheving Thorsteinsson fæddist 18. september 1930 í Svíþjóð. Hún lést 12. febrúar 2012.
Útför Unnar fór fram frá Áskirkju 21. febrúar 2012.
Unnur er farin heim eins og við skátar segjum. Unnur gerðist ung skáti og starfaði óslitið með skátahreyfingunni meðan heilsa leyfði. Margs er að minnast frá samstarfi okkar. Við fórum ásamt eiginmönnum okkar Sigmundi og Páli til Frakklands og Noregs á skátamót auk fjölmargra skátamóta hér innanlands. Einnig dvöldum við í fjölskyldubúðum á skátamótum ásamt börnum og barnabörnum.
Fyrir allmörgum árum var stofnað Félag eldri kvenskáta og var Unnur lengi formaður þess. Félagið studdi við bakið á skátafélögum í Reykjavík á ýmsan hátt, t.d. með því að gefa húsbúnað í skátaheimilin. Við fórum í ferðalög á sumrin og hittumst minnst tvisvar á ári, á bolludaginn og svo á aðventu, á jólafundi. Við hittumst ennþá þó að óðum fækki í hópnum og erum við nú aðeins átta eftir.
Síðustu árin hafa verið erfið hjá Unni og fjölskyldunni en hún er nú komin heim og laus undan öllum þrautum.
Við í Félagi eldri kvenskáta þökkum Unni samveruna og samstarfið. Hún var alltaf viðbúin að vinna með okkur fyrir skátana. Við sendum Sigmundi og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Mig langar að enda þessar línur á kvöldsöng kvenskáta.
Sofnar drótt, nálgast nótt,
sveipast kvöldroða himinn og sær.
Allt er hljótt, hvíldu rótt.
Guð er nær.
(Kvöldsöngur skáta.)
Fyrir hönd eldri kvenskáta,
Soffía Stefánsdóttir.
Sofið er ástaraugað þitt
sem aldrei brást að mætti mínu;
mest hef eg dáðst að brosi þínu,
andi þinn sást þar allt með sitt.
Slokknaði fagurt lista ljós.
Snjókólgudaga hríðir harðar
til heljar draga blómann jarðar.
Fyrst deyr í haga rauðust rós.
(Jónas Hallgrímsson.)
Við kveðjum þig, elsku hjartans amma, með einlægri þökk fyrir allt og allt. Hver minning um þig er okkur dýrmætt ljós.
Sigmundur Bjarki
Egilsson, Hildur
Axelsdóttir, Kolbrún Líf og Daniel Þór.