Brjóstapúðar Franskur lýtalæknir með PIP-brjóstafyllingar sem voru framleiddar úr ólöglegu sílíkoni.
Brjóstapúðar Franskur lýtalæknir með PIP-brjóstafyllingar sem voru framleiddar úr ólöglegu sílíkoni. — Reuters
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Í síðustu viku komu þrjátíu og þrjár konur í ómskoðun hjá Krabbameinsfélagi Íslands vegna PIP-brjóstafyllinga. Af þeim hópi greindist leki frá púðum hjá tuttugu konum samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Í síðustu viku komu þrjátíu og þrjár konur í ómskoðun hjá Krabbameinsfélagi Íslands vegna PIP-brjóstafyllinga. Af þeim hópi greindist leki frá púðum hjá tuttugu konum samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu. Var það fjórða vikan sem Leitarstöð krabbameinsfélagsins tók á móti konum með PIP-brjóstafyllingar í ómskoðun. Skoðað er á fimmtudögum og föstudögum í hverri viku og verður áfram í þessari viku samkvæmt áætlun.

Alls hafa 187 konur gengist undir þessa rannsókn hérlendis og hafa 58% þeirra greinst með lekar PIP-brjóstafyllingar.

Í fyrstu viku ómskoðunar var 41 kona skoðuð og niðurstaðan þá var að 34 konur greindust með leka púða, eða yfir 80% kvennanna. Í vikunni á eftir voru 64 konur skoðaðar og reyndust 37 þeirra vera með leka brjóstapúða, eða tæp 58%. Þriðju vikuna komu 49 konur í ómskoðun og af þeim greindust 29 með leka púða, eða 59%. Ómskoðunin er konunum að kostnaðarlausu.

Í byrjun febrúar tilkynnti velferðarráðuneytið að öllum konum með PIP-brjóstapúða yrði boðið að láta nema þá burt á Landspítalanum. Þær skurðaðgerðir hófust á spítalanum í síðustu viku þegar púðar voru fjarlægðir úr sex konum hið minnsta.