Stefán Gunnar Bragason fæddist 4. júlí 1955. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. febrúar 2012.

Útför Stefáns Gunnars fór fram frá Fossvogskapellu í kyrrþey.

Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir allt saman, þú varst ekki einungis pabbi minn heldur varstu líka minn lærimeistari og besti vinur. Við áttum svo vel saman og við vorum alltaf sammála um allt það sem við tókum okkur fyrir hendur, ekki var lífið okkar alltaf auðvelt en við gátum talað um allt og leist úr öllum vandamálum saman. Þú varst besti vinur minn og ég gat alltaf leitað til þín ef mér leið illa. Alltaf fór ég sáttur frá þér. Við skildum hvor annan svo vel að við þurftum oft ekki að segja mörg orð, við litum bara hvor á annan og það var eins og þúsund orð.

Við vorum svo rólegir saman og horfðum oft út um gluggann, hugsuðum og töluðum um lífið og tilveruna, það fannst mér ómetanlegur tími. Ég man þegar ég var ungur og fólk spurði mig hvað mig langaði að vera þegar ég yrði stór þá sagði ég alltaf „Ég vil verða smiður eins og pabbi“. Ég hef alltaf litið svo upp til þín, pabbi minn, þú ert hetjan mín.

Ég man þegar ég var um 15 ára gamall og ég hringdi í þig um nóttina og sagði að mér liði ekki vel og spurði þig hvort ég mætti ekki gista hjá þér í nokkra daga, þú varst ekki lengi að koma að sækja mig og við ræddum saman alla nóttina og það var eins og ég öðlaðist nýtt líf og þessir nokkrir dagar urðu að tveimur árum og á þessum tveimur árum varð ég að þessum sjálfstæða stolta manni sem ég er í dag.

Þú kenndir mér svo húsasmíði og tókst mig að þér og bauðst mér og vini mínum að koma að vinna hjá þér, þú settir mig inn í rekstur fyrirtækis þíns sem þú varst svo góður að byggja upp frá grunni og sagðir oft að þú vonaðir að ég tæki við þessum rekstri einn daginn. En þú kenndir mér ekki bara húsasmíði heldur kenndir þú mér á lífið sjálft. Ég er þér svo þakklátur að gera mig að þeim manni sem ég er í dag. Alltaf varstu sanngjarn á milli okkar þriggja bræðra og áttir sérstakt samband á milli okkar allra, ég get sagt fyrir okkur bræðurna að við erum allir svo ánægðir og stoltir að hafa átt þig sem föður og vin.

Takk fyrir allar ferðirnar okkar þar sem við fórum í fjallgöngur, veiðar og fleira, þetta voru svo skemmtilegar ferðir og það var hlegið oft svo mikið, þetta eru stundir sem maður mun aldrei gleyma. Þú átt eftir að lifa að eilífu í minningu minni og ég mun oft hugsa til baka um þessa góðu tíma sem við áttum saman. Þín verður sárt saknað. Takk fyrir að vera svona heiðarlegur, traustur vinur.

Sigurður Stefánsson.