Ráðamenn Angela Merkel (t.v.), kanslari Þýskalands, ásamt Wolfgang Schaeuble (t.h.), fjármálaráðherra landsins, á þýska þinginu í gær.
Ráðamenn Angela Merkel (t.v.), kanslari Þýskalands, ásamt Wolfgang Schaeuble (t.h.), fjármálaráðherra landsins, á þýska þinginu í gær. — Reuters
Þýska þingið samþykkti í gær með yfirgnæfandi meirihluta að styðja nýjan björgunarpakka sem evruríkin hyggjast veita Grikklandi í von um að koma í veg fyrir að landið neyðist til þess að lýsa yfir greiðsluþroti.

Þýska þingið samþykkti í gær með yfirgnæfandi meirihluta að styðja nýjan björgunarpakka sem evruríkin hyggjast veita Grikklandi í von um að koma í veg fyrir að landið neyðist til þess að lýsa yfir greiðsluþroti. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafði áður varað þingmenn við að slíkt myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

496 þingmenn greiddu atkvæði með björgunarpakkanum, 90 greiddu atkvæði gegn honum og fimm þingmenn sátu hjá. Björgunarpakkinn, sem evruríkin hyggjast veita Grikklandi, nemur um 130 milljörðum evra eða því sem jafngildir tæpum 21.800 milljörðum íslenskra króna.

„Ómögulegt er að reikna út allar þær hættur sem fylgja því að snúa baki við Grikklandi núna,“ sagði Merkel við þingmenn neðri deildar þýska sambandsþingsins í gær og bætti við: „Enginn getur metið hvaða afleiðingar slíkt myndi hafa fyrir efnahag Þýskalands, fyrir Ítalíu, Spán, evrusvæðið í heild sinni og að lokum alla heimsbyggðina.“ Hún tók þó fram að grísku þjóðarinnar biði langur leiðangur sem væri ekki án áhættu og að hið sama gilti um nýju efnahagsáætlunina.

Stjórnvöld í Þýskalandi segja að með minna umróti á fjármálamörkuðum, lægri ávöxtunarkröfu spænskra og ítalskra ríkisskuldabréfa, hafi dregið úr hættu á því að skuldavandinn breiðist út og sömuleiðis að dregið hafi úr þrýstingi á að styrkja björgunarsjóði evrusvæðisins. „Ríkisstjórnin sér í augnablikinu enga nauðsyn til að hefja umræðu um það hvort stækka þurfi núverandi og framtíðar björgunarsjóði evrusvæðisins,“ sagði Merkel í ræðu sinni á þinginu í gær.

Þurfti ekki að stóla á minnihlutann

Fyrir atkvæðagreiðsluna í gær var ekki talið ljóst hvort Merkel myndi þurfa að reiða sig á þingmenn minnihlutans til þess að tryggja þingmeirihluta fyrir björgunarpakkanum, en tveir þingflokkar af þeim þremur sem mynda minnihlutann höfðu áður lýst því yfir að þeir myndu greiða atkvæði með björgunarpakkanum. Hans-Peter Friedrich, innanríkisráðherra Þýskalands, olli miklum óróa fyrir atkvæðagreiðsluna í gær þegar hann lýsti því yfir að Þjóðverjar ættu að veita Grikkjum hvata til þess að yfirgefa evrusvæðið.