Hollusta Mjólkurneysla hefur dregist saman jafnt og þétt og því mikilvægt að snúa þeirri þróun við,“ segir Björn S. Gunnarsson - sem hér er á mynd með Guðnýju Steinsdóttur markaðsstjóra MS.
Hollusta Mjólkurneysla hefur dregist saman jafnt og þétt og því mikilvægt að snúa þeirri þróun við,“ segir Björn S. Gunnarsson - sem hér er á mynd með Guðnýju Steinsdóttur markaðsstjóra MS. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mjólkursamsalan með margar nýjungar í þróun. Áhersla á léttari vörur sem uppfylla næringarviðmið. D-vítamínið í brennidepli. Búum í haginn með Skráargatinu, segir Björn S. Gunnarsson vöruþróunarstjóri.

Í janúar sl. kynnti Mjólkursamsalan m.a. skyr.is í nýjum umbúðum og nýjan drykk undir sömu merkjum. Drykkurinn er merktur með Skráargatinu sem er sameiginlegt norrænt hollustumerki. Vörur þannig merktar þurfa að uppfylla ákveðin næringarviðmið, t.d. hvað varðar magn af sykri, fitu og salti og teljast hollastar vara í sínum fæðuflokki. „Með notkun Skráargatsins teljum við okkur búa í haginn fyrir þetta merki og notkun þess í íslenskum matvælaiðnaði,“ segir Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri Mjólkursamsölunnar.

Létt og fitusnautt

Offita er vaxandi vandamál og ein stærsta ógn við lýðheilsu til framtíðar. Að sögn Björns benda nýlegar rannsóknir til þess að mjólkurneysla hafi verndandi áhrif gegn offitu; þeir sem neyta þriggja til fjögurra skammta af mjólk eða mjólkurvörum daglega séu að jafnaði léttari en aðrir.

„Hins vegar hefur mjólkurneysla dregist saman jafnt og þétt á undanförnum áratugum ef marka má þessar rannsóknir og því mikilvægt að snúa þeirri þróun við,“ segir Björn. Hefur Mjólkursamsalan mætt þessari þróun til dæmis með framleiðslu á léttum afurðum, bæði fitu- og sykurminni.

Beinabankinn lokar

Í nýlegri rannsókn á mataræði fimmtán ára unglinga á vegum rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og Landspítala kemur í ljós að um helmingur unglingsstúlkna nær ekki ráðlögðum dagskammti kalks með hefðbundnu mataræði. Neysla D-vítamíns er enn minni, innan við 5% stúlkna ná ráðlögðum dagskammti.

„Þetta er bagalegt litið til þess að á yngri árum er beinmyndun í hámarki og þörf fyrir þessi næringarefni mikil. Í raun má segja að eftir 25 ára aldurinn sé beinabankinn nánast lokaður fyrir innlagnir,“ segir Björn sem segir því mikilvægt að auka neyslu landsmanna á D-vítamíni og ekki síst unglinga sem neyta flestir ótrúlega lítils magns af vítamíninu sbr. rannsóknina á mataræði 15 ára unglinga. Á unglingsaldri sé mikilvægt að fá nægt D-vítamín, en vandinn er að það er mjög óvíða í matvælum. Vítamín þeirrar gerðar fáist helst úr lýsi og feitum fiski. Önnur matvæli innihaldi nánast ekkert D-vítamín, nema því sé sérstaklega bætt í.

Þurfum D-vítamín

Hjá MS eru nokkrar vörur D-vítamínbættar. Til dæmis Fjörmjólk, sem inniheldur einnig meira kalk en hefðbundin mjólk. Einnig eru Smjörvi og Létt og laggott ásamt Stoðmjólk bætt D-vítamíni.

„Svo mun MS innan tíðar setja á markað léttmjólk bætta þessu mikilvæga vítamíni – og vonandi mun það hjálpa til við að bæta D-vítamínbúskap þjóðarinnar,“ segir Björn S. Gunnarsson að lokum.

sbs@mbl.is

Markmiðin eru alveg skýr

Kalkneysla mikilvæg rétt eins og hreyfing. Skólahreysti vekur athygli og áhuga á hreyfingu og hollu líferni á líflegan og skemmtilegan hátt,“ segir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS um stærsta styrktarverkefni fyrirtæksins.

Mjólkursamsalan hefur frá upphafi verið aðalstyrktaraðili Skólahreysti og styrkir bæði keppnishald auk þess að gefa verðlaun. Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, segir fyrirtækið í tímans rás hafa verið bakhjarl fjölmargra áhugaverðra verkefna en Skólahreysti er stærsta styrktarverkefni fyrirtækisins á sviði íþrótta.

Kalk og hollt líferni

„Það er mikilvægt fyrir ungmenni að huga að hollu mataræði og kalkneyslu og sömuleiðis mikilvægt að huga að hreyfingu. Skólahreysti MS vekur athygli og áhuga á hreyfingu og hollu líferni á líflegan og skemmtilegan hátt,“ segir Guðný Steinsdóttir.

Keppnishald tengt Skólahreysti verður sífellt umfangsmeira og áhuginn hefur vaxið mikið. Guðný hefur eftir íþróttakennurum að Skólahreysti hafi vakið áhuga margra krakka á íþróttum og gert kennsluna skemmtilegri. Með því sjáist að Skólahreysti hafi komið mörgu góðu til leiðar og átt þátt í að bæta lýðheilsu. „Við erum stolt af því að tengjast verkefninu og sjá það vaxa eins og raun ber vitni. Þegar Skólahreysti fór af stað árið 2005 tóku aðeins sex skólar þátt í henni en nú eru það um 100 skólar á hverju ári. Strax í upphafi var ákveðið að gera keppnina sem glæsilegasta og gera skólunum auðvelt að taka þátt í henni en engin keppnisgjöld eru og frítt inn á allar keppnir,“ segir Guðný.

Endurspeglar ferskleika

Næring er veigamikill þáttur í heilbrigðum lífsháttum og nefnir Guðný þar sérstaklega Skyr.is sem nýlega kom á markað í nýjum umbúðum.

„Einnig höfum við blásið til skemmtilegs leiks á facebooksíðu skyr.is þar sem fólk er hvatt til að setja sér Skyr markmið. Í tilefni markaðssetningarinnar hefur Skyr.is-vefurinn verið uppfærður og þar er nú að finna upplýsingar um markmiðasetningar, hollustu og hreyfingu,“ segir Guðný. „Rétt eins og krakkarnir sem taka þátt í skólahreysti hefur mikill fjöldi fólks sett sér alveg skýr markmið og eru þau flest hreyfingartengd; þannig ætla sumir sér að klífa ný fjöll á árinu, hlaupa maraþon, borða hollari mat og þar fram eftir götunum. Útlit nýju umbúðanna hefur sömuleiðis mjög sterja skírskotun í íslenska fjallasýn sem endurspeglar ferskleika með áherslu á hátt próteininnihald skyrs og skyrdrykkjar sem eru sannkölluð íslensk gæðavara.“

sbs@mbl.is