Gísli Garðarsson fæddist í Neskaupstað 1. júní 1949. Hann lést í sjóslysi við Noregsstrendur 25. janúar 2012.

Minningarathöfn um Gísla Garðarsson var í Ytri Njarðvík 24. febrúar 2012.

Elsku Gísli, þar sem ég sit og horfi yfir fjörðinn okkar fagra streyma fram minningar um þig. Þú varst mér svo mikið. Alltaf flottastur og svo mikill mannvinur.

Ég varð þess aðnjótandi að vera mikið með þér. Fara með þér og pabba í siglingu til Englands. Vinna með þér og Dísu við uppstokkun og í harðfiskverkuninni. Þið alltaf svo samhent, dugleg og gaman að vinna með ykkur. Það var mikill kærleikur með ykkur Dísu og oft stutt í glens og gaman.

Þú varst svo laginn að tala fólk til. Þú stóðst alltaf með mér, sagðir mömmu og pabba að ég, litla systir þín, gæti gert hluti sem stundum voru smá fullorðins. Þú varst meira að segja lengi í peysunni sem ég prjónaði handa þér. Það vissu allir hver stóð í brúnni þegar þeir sá appelsínugulu peysuna sem þú kallaðir veiðikló. Já, þá var oft fjör og prakkaragangur hjá okkur. Það var með þér sem ég fór fyrst á ball 14 ára gömul og þú taldir það sjálfsagt.

Tíminn leið og við þroskuðumst, eignuðumst maka og fórum að búa. En við áttum alltaf svo vel saman. Fórum í stuttar gönguferðir í nágrenni Norðfjarðar og siglingar með barnahóp okkar systra. Sjómannadagurinn var dagurinn þinn. Þú varst alltaf aðalkarlinn hjá börnunum, áttir flottasta bátinn og í minningunni vorum við alltaf fyrst í hópsiglingunni.

Það er erfitt að kveðja en enginn breytir örlögum sínum. Við biðjum Guð að styrkja Dísu og fjölskyldur okkar á þessum dimmu dögum.

Brynja systir

og fjölskylda.

Það var erfitt að heyra að togarans Hallgríms SI 77, sem Gísli var á, á leið til Noregs, væri saknað. Óvissa tók við en svo bárust fréttir að einum skipverja hefði verið bjargað og við vissum ekki hver það var en við vonuðumst til að allir skipverjar myndu finnast heilir á húfi.

Þegar við hugsum til Gísla færist yfir okkur bros. Fyrir okkur var Gísli eiginmaður föðursystur okkar, skipstjóri, útgerðarmaður og sjálfstæðismaður þrátt fyrir að vera Norðfirðingur. Gísli var líka margt annað, hann var einstaklega geð- og barngóður, með þétt handtak, hlátur- og brosmildur, hjálpsamur og skemmtilegur. Hann hafði hlýja nærveru og hugsaði svo vel um Dísu og fjölskylduna.

Eftir sjóslysið hafa komið upp minningar í hugann frá liðnum árum af samverustundum okkar með Gísla eins og jólaboðin, laufabrauðsgerðin þar sem hver hafði sitt hlutverk (og Gísli og pabbi sáu um steikingu), útilegur, fertugsafmælið í Neskaupstað, glænýr fiskur í orlydeigi, ákafur grassláttur í „garð-fjallshlíð“ Þiljuvalla, fimm lítra pick-up í hæsta gír á leið upp Oddsskarðið og sigling á Fylki m.a. í Við- og Miðfjörð svo fátt eitt sé upptalið.

En í rauninni er ekki hægt að tala um Gísla í eintölu, því við hugsuðum yfirleitt til þeirra beggja í senn, Dísu frænku og Gísla – þau voru svo miklir vinir.

Söknuðurinn er sár og erfitt að sætta sig við að Gísli sé farinn og að við munum ekki hitta hann aftur.

Elsku Dísa frænka, missir þinn er mikill, en minningin um góðan og kærleiksríkan mann mun lifa með okkur.

Árni, Kolbrún og

Vala Georgsbörn.

Mig langar að minnast Gísla sem var mér kær frændi og vinur.Við tengdumst þannig að ég og móðir hans vorum bræðradætur. Fjarlægðin gerði það að verkum að við þekktumst ekki mikið, hún alin upp á Norðfirði en ég í Reykjavík. En seinna fann ég hann frænda minn hér í Reykjanesbæ þar sem við bjuggum bæði.

Við fundum strax ættartengslin og tengdumst vináttuböndum. Mér fannst gott að vita af honum frænda mínum svona nálægt mér. Hann birtist eins og ferskur vindur í dyragættinni hjá mér, kallaði „hæ“ er einhver heima, þegar hann kom færandi hendi til frænku sinnar.

Ég votta eiginkonu, systkinum og öðrum ástvinum innilega samúð og bið góðan Guð að vera með okkur öllum.

Guð geymi þig, elsku frændi, og takk fyrir allt.

Þín frænka,

Þóra Jónsdóttir.