Barnaþrælkun Um það bil 215 milljónir barna í heiminum neyðast til þess að starfa við mjög erfiðar aðstæður. Hér sést fimm ára gömul stúlka selja hárspennur í neðanjarðarlest í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu.
Barnaþrælkun Um það bil 215 milljónir barna í heiminum neyðast til þess að starfa við mjög erfiðar aðstæður. Hér sést fimm ára gömul stúlka selja hárspennur í neðanjarðarlest í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu. — © UNICEF/Rich
Skúli Hansen skulih@mbl.is Aðstæður barna í borgum og þéttbýli eru í kastljósi nýrrar alþjóðlegrar skýrslu UNICEF sem verður birt í dag.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Aðstæður barna í borgum og þéttbýli eru í kastljósi nýrrar alþjóðlegrar skýrslu UNICEF sem verður birt í dag. Rúmlega einn milljarður barna býr í þéttbýli núna en samkvæmt skýrslunni er talið að innan fárra ára muni meirihluti barna í heiminum alast upp í þéttbýli. Mörg tækifæri fylgja því að alast upp í þéttbýli en slík búseta hefur þó einnig sína ókosti.

„Almennt hafa börn í borgum meiri tækifæri heldur en börn úti á landi vegna þess að þjónusta er frekar til staðar, menntastofnanir þar eru betri og innviðirnir eru almennt sterkari í borgum heldur en úti á landi,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, og bætir við: „En það er líka miklu meiri ójöfnuður innan borga, þannig að það er meiri munur þar á milli fátækustu og ríkustu barnanna, til dæmis er fullt af börnum í borgum sem fara ekki í skóla.“

Búa við mjög erfiðar aðstæður

Í skýrslunni kemur fram að um það bil 215 milljónir barna í heiminum neyðist til þess að vinna við erfiðar aðstæður.„Fólk flytur oft til borga í leit að atvinnu. Þ.e. annars vegar eru þetta börn sem eru nýflutt í borg vegna þess að foreldrar þeirra eru að leita að atvinnutækifærum, en nú fæðist líka fjöldi barna í fátækrahverfum í borgum. Þá eru þau oft kirfilega föst í viðjum fátæktar og börnin hafa til dæmis ekki tækifæri til þess að fara í skóla, þau þurfa að vera úti á götu að selja smávarning, sum þeirra betla eða vinna hina og þessa erfiðisvinnu sem þau ættu auðvitað ekki að vera að gera,“ segir Sigríður. Í skýrslunni kemur einnig fram að börn sem búa í fátækrahverfum í borgum búi gjarnan við afar hættulegar aðstæður. „Fátækrahverfi myndast oft á mjög hættulegum stöðum af því að þar vill enginn annar búa. Þá ertu fljótt kominn með mikinn fjölda ungra barna sem býr rétt við varasamar umferðargötur, við hlið lestarteina, í bröttum hæðum þar sem aurskriður geta valdið vandræðum í rigningu eða jafnvel á ruslahaugum,“ segir Sigríður.

Vert er að minnast á það að samkvæmt skýrslunni mælist barnadauði minnstur á Íslandi og í evrópsku smáríkjunum San Marínó og Liechtenstein. Í þessum ríkjum deyja einungis tvö af hverjum þúsund börnum áður en þau ná 5 ára aldri.