Björgunaraðgerðir Christine Lagarde, forstjóri AGS, segir óvíst hvort samkomulag muni nást um 500 milljarða dala fjárframlög til sjóðsins.
Björgunaraðgerðir Christine Lagarde, forstjóri AGS, segir óvíst hvort samkomulag muni nást um 500 milljarða dala fjárframlög til sjóðsins.
Forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, hefur viðurkennt að óvíst sé hvort samkomulag muni nást fyrir apríl á meðal aðildarþjóða sjóðsins um að leggja fram 500 milljarða Bandaríkjadala til að stemma stigu við skuldakreppunni á...

Forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, hefur viðurkennt að óvíst sé hvort samkomulag muni nást fyrir apríl á meðal aðildarþjóða sjóðsins um að leggja fram 500 milljarða Bandaríkjadala til að stemma stigu við skuldakreppunni á evrusvæðinu.

Lagarde lét þessi ummæli falla eftir fund fjármálaráðherra G20-ríkjanna í Mexíkóborg í fyrrakvöld. Fram kom í tilkynningu eftir fundinn að fjármálaráðherrar tuttugu helstu iðnríkja heims setja það sem skilyrði að björgunarsjóður evrusvæðisins verði efldur enn frekar, ef önnur ríki utan Evrópu eigi að taka þátt í björgunaraðgerðunum með því að auka fjárframlag sitt til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ljóst er að yfirlýsingin mun setja aukinn þrýsting á ráðamenn Þýskalands sem hafa fram til þessa lagst gegn því að stækka björgunarsjóðinn.

Fjármálaráðherrar G20-ríkjanna bentu ennfremur á að ekki mætti búast við því að fjármagn til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði aukið á sama tíma og ekki liggur fyrir skýr stefna um það hvernig eigi að fást við þá djúpstæðu skuldakreppu sem herjar á mörg ríki evrusvæðisins. hordur@mbl.is