Áströlsk hjúkrunarkona, Bronnie Ware, sem hefur áralanga reynslu af því að líkna deyjandi fólki hefur ritað merkilega bók, „The Top Five Regrets of the Dying“, þar sem hún fjallar um það sem deyjandi fólk sér mest eftir að hafa ekki gert í...

Áströlsk hjúkrunarkona, Bronnie Ware, sem hefur áralanga reynslu af því að líkna deyjandi fólki hefur ritað merkilega bók, „The Top Five Regrets of the Dying“, þar sem hún fjallar um það sem deyjandi fólk sér mest eftir að hafa ekki gert í lífinu meðan það hafði tækifæri til.

Efst á lista Ware er: „Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til að lifa lífinu eins og ég sjálf(ur) vildi gera það, ekki eins og aðrir ætluðust til.“ Ware segir þetta óhemju algengt, fólk iðrist þess gjarnan á lokaspretti lífs síns að hafa ekki látið á drauma sína reyna.

Í öðru sæti á listanum: „Ég vildi óska þess að ég hefði ekki unnið svona mikið.“ Ware segir svo til hvern einasta karlkyns sjúkling sinn hafa talað um þetta. Margir þeirra iðruðust þess að hafa misst af uppvexti barna sinna og af mikilvægum stundum með eiginkonunni. Ware segir konur einnig hafa nefnt þetta atriði en í mun minna mæli enda voru konurnar af þeirri kynslóð, sem hún hjúkraði mest, margar hverjar aldrei fyrirvinnur á sínum heimilum.

Í þriðja sæti á lista Ware: „Ég vildi að ég hefði haft meira hugrekki til að tjá tilfinningar mínar.“

Ware segir marga hafa bælt tilfinningar sínar til að halda friðinn við annað fólk. Fyrir vikið hafi þeir gert sér meðalmennskuna að góðu og aldrei orðið þær manneskjur sem þeir höfðu sannarlega burði til.

Í fjórða sæti á lista Ware: „Ég vildi óska þess að ég hefði haldið betra sambandi við vini mína.“

Ware segir mjög algengt að fólk sakni gamalla vina sárt á dánarbeðinum og þá séu þeir ýmist fallnir frá eða erfitt að hafa uppi á þeim. Margir iðrast þess að hafa verið of uppteknir af eigin málum og látið vináttuna við aðra þannig dankast.

Fimmta og síðasta atriðið: „Ég vildi óska þess að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari.“ Ware segir marga átta sig á því á dánarbeðinum að þeir hafi fyrir langa löngu fest í viðjum vanans og látið þar við sitja. Þá sé of seint að skilja að hamingja er val.